Seyðfirski Alpaklúbburinn í Selva

 

SF-ALP félagarÁrleg skíðaferð okkar félaganna í SF-ALP, Seyðfirska alpaklúbbnum, gekk betur en vel. Veðrið lék við okkur og skíðafæri var eins og best verður á kosið. Við erum allir sammála um það að við höfum ekki skíðað við betri aðstæður.  Allir eru heilir þó sumir hafi fengið smá byltur og í raun frekar haft gaman af en hitt. 

Árleg kvöldveisla okkar var á fimmtudaginn og voru þau Halldór Guðmundsson og Anna Björnsdóttir gestir að þessu sinni og voru Önnu færðar sérstakar þakkir fyrir merkið okkar, sem hún hannaði. Þá var Theodór bróðir tekinn formlega inn í klúbbinn að lávarða sið en í stað sverðs var auðvitað notaður skíðastafur.
Skakkur með skakka flösku í afmælisgjöfSigurður Jónsson flutti mér afmælisræðu fyrir hönd félaganna og færði mér að gjöf m.a. "skakka" flösku af eðalvíni.  Foringinn okkar Þorvaldur Jóhannsson fór á kostum og Adolf Guðmundsson og Sigurður Gíslason léku auðvitað stórt hlutverk eins og alltaf. Að veislu lokinni var farið niður á bar þar sem afmælissöngurinn var sunginn og nokkrir góðir slagarar teknir við mikinn fögnuð allra viðstaddra.

Við félagarnir komum allir heilir heim síðdegis á laugardag eftir eina af okkar allra bestu skíðaferðum til þessa.


Árleg skíðaferð Seyðfirðinga

Gísli á skíðumLoksins, loksins er aftur kominn miður febrúar, sem þýðir árleg skíðaferð Seyðfirska Alpaklúbbsins. Við höldum til Selva - Val Gardena á Ítalíu á morgun, laugardaginn 16. febrúar og við "strákarnir" munum væntanlega skíða sem aldrei fyrr í heila viku.  Að þessu sinni ætlar Theodór bróðir að koma með okkur en hann fékk heimild til slíks í afmælisgjöf í lok árs 2006.  Aðrir félagsmenn sem verða með að vanda eru foringinn Þorvaldur Jóhannsson fv. skólastjóri og bæjarstjóri og nv. framkvæmdastjóri SSA, Sigurður Jónsson verkfræðingur frá Hánefsstöðum, lögmaðurinn og útgerðarmaðurinn Adolf Guðmundsson og endurskoðandinn Sigurður Gíslason.  Verkaskipting í hópnum er afar skýr; foringinn Þorvaldur ræður öllu en raunverulega er það Adolf og við hinir sem tökum allar ákvarðanir (Þorvaldur bara fattar það ekki alltaf.  Besta ráðið til að draga athygli hans frá ákvarðanatökunum er að ræða svolítið um pólitík og jafnvel skjóta lausum skotum.  En þetta er auðvitað aukaatriðið aðalatriðið er að við höfum óendanlega gaman af því að skíða saman, borða saman, spjalla saman og skemmta okkur saman og það hefur aldrei klikkað og það mun aldrei klikka.

 


Heimsókn til Haítí – annars fátækasta ríkis heims

Gísli á HaítíEyjan Hispaniola, eins og Kristófer Kólumbus nefndin hana liggur í suð-austur af Kúbu. Á eyjunni eru í dag tvö ríki; Haítí er á vestur hlutanum og Dóminíska lýðveldið, sem er um 2/3 eyjunnar að austan.  Saga þessara landa er samofin og blóði drifin en síðan 27. febrúar árið 1844 hafa þetta verið tvö aðskilin ríki. Þau bera bæði með sér nafnið lýðveldi en Haítí aðeins að nafninu til. Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna er Haítí talið annað fátækasta ríki heims og landamæranna er vel gætt því ásóknin í að komast fyrir þau til austur er gríðarleg sem vonlegt er.

Við erum búin að vera að leita lengi að möguleika á að fara í heimsókn til Haítí en án árangurs. Þá ákváðum við að taka málin í okkar hendur og fara bara á eigin vegum og láta slag standa. Við skiptum liði og við Þóra Björk 9. febrúar og Fríða Dögg og Gunnþórunn þann 10.

Það tók okkur fjórar klukkustundir að keyra að landamærunum og finna nokkuð öruggt stæði fyrir bílinn síðan bitum við á jaxlinn og réðum heimamann, sem var að sniglast þarna sem leiðsögumann.  Fyrst þurfti að komast út úr Dóminíska og yfir á brúna á ánni sem aðskilur löndin og er hlutlaust svæði, sem gætt er af hermönnum frá Úrúgvæ og síðan inn í Haítí þar sem landamæranna er gætt af herflokki Sameinuðu þjóðanna ásamt hers Haítí. Þarna var mikið af skuggalegu fólki með enn skuggalegri vopn þar sem allir eru að passa upp á alla og maður finnur hvernig kraumar undir. Sameinuðu þjóðirnar eru þarna greinilega til að grípa inní ef upp úr síður.

Leiðsögumaðurinn okkar sagðist tala góða ensku en fljótlega kom í ljós að eina setningin sem hann var alveg með á hreinu var "you understand?" en stundum náðum við þó að reikna út hvað hann var að segja okkur. Hann vildi endilega láta keyra okkur 35 km inn í landið til einhvers bæjar en við afþökkuðum það og létum duga að skoða landamærabæinn Ouanaminthe og sú ákvörðun okkar reyndist góð því eftir að hafa gengið okkur upp í hné vorum við hreinlega búin að fá nóg. 

Fyrrverandi lögreglustöðInni í miðjum bænum var stór markaður heimamanna þar sem þeir voru að selja allt milli himins og jarðar - allt notað og allt allskonar drasl - allt sem nöfnum tjáir að nefna. Mannþröngin var gífurleg og rykið og reykurinn í loftinu ásmat undarlegum daun ætlaði okkur alveg að drepa.  Leiðsögumaðurinn setti klút fyrir andlitið en við höfðum ekkert svoleiðis meðferðar og létum þetta því yfir okkur ganga. Fátæktin þarna blasir allstaðar við. Hýbýli mamma eru ömurleg og flest barnanna án skófatnaðar og sum án fata.  Stór bygging er í miðju bæjarins sem er að hruni komin eftir uppreisn sem þarna var gerð fyrir ekki löngu síðan. Þetta var eitt sinn lögreglustöð en er nú rústir einar.  Eitt og eitt hús á stangli sýnist þó vera góður mannabústaður og í öllum tilfellum var skýringin sú að eigandi hefði Amerískt vegabréf og byggi þar líka - hreint með ólíkindum að sjá þessi hús innan um alla kofana og fátæktina. Ég má ekki gleyma að þarna sáum við líka mjög fallega byggða kaþólska kirkju en kirkjan virðist alltaf eiga peninga til að reisa glæsibyggingar þó sóknarbörnin eigi ekki bót fyrir boruna á sér og varla nógan mat til að nærast eðlilega. Flestir íbúar Haítí eru þó Vúdú trúar þar sem hið illa er dýrkað í bak og fyrir. Tungumálið þeirra er kreol en sumir tala líka frönsku þar sem Haítí var eitt sinn frönsk nýlenda.

Markaður á HaítíVið vorum bæði örþreytt þegar við loksins komumst aftur yfir landamærin eftir dálítið bras og ánægð með að sjá að bíllinn okkar var í heilu lagi. Þá áttum við eftir að keyra í fjóra klukkutíma til að komast aftur til Cabarette þar sem hótelið okkar er. Mikil lífsreynsla, sem ég á ómögulegt með að koma í orð og mikill dagur að baki sem mun örugglega aldrei renna mér úr minni og vonandi lærist mér betur að meta það sem ég á og það sem ég hef að láni í þessu lífi.


Að leika sér með hákörlum og höfrungum

Þóra Björk, Gunnþórunn, Fríða Dögg og GísliLoksins kom að því. Við fararstjórarnir erum búin að vera á leiðinni í skemmtigarðinn Ocean World í margar vikur. Vissum hér um bil hvað var í boði en höfðum ekki haft tækifæri á að fara sjálf í garðinn vegna anna. En loksins kom dagurinn. Við vorum mætt eldsnemma morguns og starfsmenn garðsins settu upp fyrir okkur dagskrá. Stelpurnar sáu alveg um þetta og svo var mér tilkynnt hvað við ættum að gera; fyrst áttum við að synda með stórskötum og gefa þeim eitthvað að borða, þá tæki við náin kynni við hákarla og snorkl í hákarlalauginni og loks skemmtun og sund með höfrungum!!! Mér brá rosalega, ég sem kominn var bara til að skoða.  Þorði þó ekki að láta á neinu bera og reyndi að sýna ró og fullkomna yfirvegun enda lífsreyndur karlmaður á meðal ungra og hraustra kvenna.  

Ocean WorldVið byrjuðum sem sagt á að fá allskonar leiðbeiningar fyrir þetta "lífhættulega" uppátæki og síðan var að gera sig kláran með björgunarvesti, froskalappir og snorkl-græjur. Ég var hér um bil að guggna þegar ég í einskonar leiðslu fór út í laugina með skötunum. Þetta var svona til að venja okkur við. Þurftum að passa vel upp á tær og fingur því sköturnar eiga það til að "totta" mann við minnsta tilefni. Svo vorum við látin gefa þeim að borða úr hendinni og við það tækifæri var ein þeirra svo aðgangshörð við Gunnþórunni að úr blæddi.

Þá var komið að hákörlunum og nú var minn maður um það bil að fara á taugum. Ég hríðskalf af hræðslu en sagði stelpunum að mér væri svolítið kalt.

Nú kom líka í ljós að við hákarlalaugina var stórt áhorfendasvæði og fólk dreif að úr öllum áttum. Við vorum sem sagt skemmtiatriði dagsins. Ég lét mér detta í hug að kannski væri besta skemmtiatriðið að játa sig sigraðan og ganga á brott en ég eiginlega guggnaði á því líka, greip til æðri máttar og lét mig hafa það sem að höndum bar. Þegar upp var staðið voru þetta hinar vænstu skepnur og gerðu okkur ekki mein þrátt fyrir blóðugan fingur eins fararstjórans. Mér fannst bráðskemmtilegt að snorkla með þessum dýrum og reyndi að hugsa bara um kæstan hákarl á þorrahlaðborðum heima á Íslandi.

Gísli snorklarLoks var komið að höfrungunum. Þeir byrjuðu á að sýna listir sína fyrir okkur og síðan fórum við tvö og tvö í einu til að leika við einn þeirra. Ýmist dönsuðum við þá eða knúsuðum og kysstum. Lokaatriðið var svo að koma sér fyrir langt úti í laug með hendurnar beint út frá öxlunum og bíða þess að tveir höfrungar renndu sér upp að manni og þá greip maður um bakuggana og þeir rifu mann með sér á ógnar hraða þannig að kroppurinn þeytti kerlingar á vatninu.  Þetta var yndislegur dagur með skemmtilegu fólki. Við vorum öll, ég Gunnþórunn, Fríða Dögg og Þóra Björk ásamt systur og mági Gunnu þeim Andreu og Brjáni, í sjöunda himni með þennan frábæra skemmtigarð þar sem líka er hægt að fara á kvöldin á "gala-kvöldverð, Vegasskemmtun og spilavíti.

Alvöru hanaslagur – í orðsins fyllstu merkingu

Ég var í skoðunarferð með farþega um Puerto Plata þegar ég fékk upplýsingar um það að við fararstjórarnir gætum farið í fylgd heimamanna á hanaslag um kvöldið. Við vorum ekki lengi að þakka gott boð. Hanaslagur er þjóðaríþrótt hér í Dóminíska lýðveldinu og á sér langa sögu og hefðir í þjóðlífin. Hin þjóðaríþróttin er öllu mannlegri en það er hafnarbolti. Við keyrðum síðdegis í lítið þorp suð-austur af Puerto Plata en þar er að finna forláta hanaslags hring.  Aðgangseyririnn var 400 pesóar eða um 800 krónur íslenskar og þykir dýrt. Ekki komast að nema nokkrir tugir áhorfenda sem raða sér á bekki inni í litlum hringlaga hjalli og í miðjunni er slagsmálasvæðið.  Það var gríðarleg CIMG0705spenna í loftinu þegar við vorum að koma okkur fyrir og mikill troðningur. Einhverjir peningaseðlar boru byrjaðir að skipta um eigendur en ógerlegt að henda reiður á hver var að veðja við hvern.  Dómarinn eða öllu heldur stjórnandinn, sem kosinn er í almennum kosningum, var búinn að koma sér fyrir og tveir af starfsmönnum hans voru að byrja að "hita upp" dýrin. Þegar hanarnir voru orðnir vel æstir hófst leikurinn eða eigum við ekki frekar að segja bardaginn því hann er upp á líf eða dauða.  Hanarnir, sem er sérstaklega aldir til hins arna, berjast í hámark 15 mínútur eða þar til annar liggur dauður eftir. Þetta er ekki beint geðsleg íþrótt og ég verð að viðurkenna að ég horfði meira á mannfólkið (nær eingöngu karlmenn) en hana kvikindin. Æsingurinn og blóðhitinn er rosalegur, kallað öskrað bæði á hanana og þá sem veðjað hefur verið við. Það ætlaði bókstaflega allt að verða CIMG0708vitlaust og þá skarst vopnuð lögregla í leikinn og róaði menn niður.  Þegar annar hanni lá óvígur eftir öskruðu menn ýmist af gleði eða reiði og svo skiptu peningar um hendur - töluverðir peningar sýndist mér, því ekki eru þetta efnamenn heldur flestir fátækir bændur.
Við sátum þarna þrumulostin í nokkrar lotur og yfirgáfum svo svæðið þegar við höfðum fengið nóg.  Mér fannst hanaslagurinn ógeðfeldur en hegðun mannfólksins áhugaverð.  Sannarlega þó nokkur lífsreynsla að upplifa hanaslag við frumstæðar aðstæður í Dóminíska lýðveldinu.

Krabbinn sækir að

ElsaÞað er ekki allt of góðar fréttir af henni Elsu minni.  Lyfjameðferðin við heilakrabbameininu hefur gengið brösótt - en síma- og tölvusambandið mitt er í algjörum ólestri svo ég hef svo sem ekki nákvæmar fréttir af þessu. Vesenið byrjaði þegar hún ætlaði að byrja á öðrum lyfjaskammtinum sínum skömmu fyrir jól. Þá kom í ljós að tryggingafélagið hennar sagði að hún væri búin með "lyfjakvótann" og þeir myndu ekki greiða meira. Hver skammtur kostar nálægt $4.000 svo þetta var þungt högg. Einhverneigin náðu þau að bjarga þessu en hvernig veit ég ekki - of flókið til að útskýra í rándýru símtali.  Þegar hún var að fara að hefja lyfjaskammt númer þrjú kom í ljós að ígerð var kominn í beinin og heilann, sem mönnum leist ekki allt of vel á. Ígerðin hefur síðan eitthvað minnkað þannig að beðið er með frekari aðgerði í því máli. Loksins gerðist það svo um daginn að hún fékk annað flogakast, svipað því sem hún fékk í byrjun veikindanna nema nú var það að mestu hægra megin.  Ég hef ekki nýrri fréttir en er þó rólegur þar sem ég veit að þau geta komið boðum til mín ef eitthvað bjátar á.

Þóra Katrín og GísliUm daginn fékk ég tölvupóst frá vinkonu minni Þóru Katrínu á Ítalíu (Þóra vann með mér á Rhodos í fyrra sumar og við verðum þar aftur í sumar) þar sem hún segir mér frá því að Kikko, maðurinn hennar, hefði verið greindur og skorinn við sortuæxli í læri og krabbamein í eitlum. Aðgerðin tók fjórar klukkustundir og var mjög erfið.  Í síðasta tölvupósti til mín segir hún að það standi til að flytja hann á annan og betri spítala þar sem framhaldið ræðst. Bæði eru þau Elsa mín og Kikko korn ung og í blóma lífsins þegar krabbinn sækir að. Elsa er bráðum 37 ára og Kikko er 40. Það er eins gott að læknavísindin sýni nú og sanni á þessu unga fólki hvers þau eru megnug. Það sem við getum gert er að vera jákvæð og bjartsýn og senda endalaust góða strauma til þeirra sem við elskum og biðja allar góðar vættir um stuðning.


Hanaslagur, hákarlar, höfrungasund, Haítí og Leonel Fernandes

Það hefur margt á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast enda verið staðsettur í Karabíska hafinu og hér ganga hlutirnir svolítið öðruvísi fyrir sig en heima.  Pólitíkin er að vísu í algleymingi hér í Dóminíska lýðveldinu eins og heima en maður nýtur þeirra forréttinda að vera alveg laus við að þurfa á hlusta á hana. 
LEONELFDEZForsetakosningar verða í hér í maí eins og heima og sitjandi forseti ætlar sér að ná endurkjöri eins og heima þrátt fyrir marga mótframbjóðendur. Leonel Fernandes forseti, forsætisráðherra og yfirmaður hers og lögreglu var á ferð um Puerto Plata um daginn og það voru einnig þrír starfsmenn af skrifstofu Heimsferða ásmat Gunnþórunni Bender fararstjóra.  Öll voru þau að kíkja á eitt hótelanna okkar, Hote Casa Coloniel, þegar þau hittust Forsetinn, forsætisráðherrann og yfirmaður hers og lögreglu í Dóminíska lýðvelsinu og Heimsferðafólkið.  Þau tóku stutt spjall saman og síða stilltu allir sér upp fyrir myndatöku.  Því miður var ég staddur á næsta hóteli við hliðina ásamt hinum fararstjórunum hér og við misstum því af þessu skemmtilega augnabliki.
Síðustu daga hefur okkur gefist smá tími frá daglegum störfum til að kíkja aðeins um og skoða það sem okkur hefur langað til að skoða alveg síðan við komum hingað um miðjan desember.  Fyrir nokkrum dögum fórum við á hanaslag, sem er önnur af tveimur þjóðar íþróttum hér, fyrir þrem dögum var okkur boðið í Ocean World þar sem við syntum með skörum, hákörlum og höfrungum, í fyrradag fórum við Þóra Björk og skoðuðum hellana og þjóðgarðinn í Cabarete og svo toppuðum við þetta allt í gær með því að fara í dags heimsókn til nágrannaríkisins Haítí. En meira um þetta um leið og ég er búinn að koma því á blað.


Einkennilegir dagar á Íslandi – hnífasett og leiðinda umræða, sem hellist yfir þjóðina

Með fararstjórunum í DóminískaÞetta er nú meira "útstáelsið" á mér þessi misserin. Kom heim úr Karabíska hafinu á laugardagsmorgun og ekki enn búinn að ná upp tímamuninum þegar ákveðið er að ég fari aftur til Dóminíska lýðveldisins á fimmtudaginn kemur þann 24. jan. Ég held að ástæðan sé að stúlkurnar sem þar er fararstjórar hafi saknað mín - ég ætla a.m.k. að halda í þá trú þangað til annað kemur í ljós.

Ég var ekki fyrr komin heim en framsóknarmaðurinn Björn Ingi stóð ljóslifandi í sjónvarpinu og sagðist vera með heilu hnífasettin í bakinu (þeir kasta hnífum sem eiga þá). Um þetta snerist mikil umræða, væntanlega til að reyna að ná fjandans kutunum úr bakinu á manninum. 

41383167Því verki var örugglega ekki lokið þegar allt ætlaði vitlaust að verða í borgarpólitíkinni. Nýr meirihluti varð til á hálftíma þrátt fyrir leynilegar viðræður í marga dag og nú er kominn nýr borgarstjóri og þá um leið nýr meirihluti í borginni. Læknirinn (sem líka var sjúklingur) og frændi vinar míns er orðinn borgarstjóri í Reykjavík. Hann var einu sinni í sama stjórnmálaflokki og ég og hann hefur einu sinni sprautað mig gegn flensu en sú sprauta klikkaði, sjaldan eða aldrei fengið eins hundleiðinlega flensu.

Umræðan um þetta brölt á örugglega eftir að verða drepleiðinleg alveg eins og mér er sagt að umræðan um skipan Þorsteins Davíðssonar sem dómstjóra hafi líka verið drepleiðinleg. Þorsteinn er ágætur, þekki hann og hef unnið með honum að góðum málum

Það er því ágætt að vera aftur á útleið og sleppa við allar þessar leiðinda umræður sem hellast yfir þjóðina eins og flensa sem sprautur læknisins hafa ekki unnið á.

Ég og foringinn í Selva 2005Ég kem aftur heim þann 15. febrúar og fer svo sólarhring seinna á skíði til Ítalíu með vinum mínum í SF-Alp. Þar verður engin leiðinda umræða í gangi bara eldheitar umræður um allt og ekki neitt þar sem menn takast á af fullum kröftum í þeim tilgangi einum að skemmta sér og öðrum. Engir hnífar í bakið, ekkert kjaftæði,  bara kjafturinn og klofið eins og kerlingin sagði. En um fram allt verður skíðað, skíðað og aftur skíðað.


Guðmundur frændi minn er látinn

Guðmundur GíslasonÞað var erfitt að koma heim í morgun eftir 6 vikna dvöl í Karabíska hafinu.  Þegar ég fletti Morgunblaðinu um hádegisbil í dag sá ég að Guðmundur frændi minn Gíslason hafði látist þann 2. janúar s.l.  og jarðarförin farið fram 10. janúar.  Mér þótti mjög sárt að hafa ekki fengið fregnir af þessu en vafalaust er um að kenna bæði lélegu símasambandi þar sem ég var og eins því að netsambandið var heldur ekki of gott.

Guðmundur frændi var fæddur á Seyðisfirði 17. desember árið 1926 og var því liðlega tvítugur um það leiti sem ég kom í heiminn.  Svo lengi sem ég man var Guðmundur uppáhalds frændi minn og vinur.  Hann var í mjög mörgu mín fyrirmynd eða "idol-stjarna" eins og það er kallað núna. Alla mína barnæsku bjó hann í húsinu hjá afa og ömmu á Austurveginum og eftir að hann kvæntist Jónhildi þegar ég var 6 ára bjuggu þau sín fyrstu hjúskaparár þar. Guðmundur frændi var fyrirmynd mín á skíðum, hann var góður og kunnáttusamur ljósmyndari sem átti sína myrkrakompu og vann sínar myndir sjálfur. Hann smitaði mig af hvoru tveggja þó aldrei næði ég jafn góðum árangri og hann. Guðmundur Gíslason var einn vandaðisti maður sem ég hef kynnst. Hann var í Útvegsbankanum á Seyðisfirði með Theodóri afa og síðar Landsbankanum alla sína starfævi og þar sannaðist það á hverjum degi hversu vandaður hann var.  Ég á Guðmundi frænda margt að þakka og það er margs að minnast þegar ég lít yfir genginn veg en ég læt þetta nægja að sinni. Jónhildi, Guðrúnu Valdísi, Friðrik og Val sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Vertu sæll kæri frændi og takk fyrir samleiðina.


Nýju ári fagna í Dóminíska lýðveldinu

Áramót. Gísli, Þóra Björk, Gunnþórunn, Fríða Dögg og HéðinnÁramótin gengu í garð hér fjórum klukkustundum síðar en heima á Íslandi en voru engu að síður bæði góð og skemmtileg.  Klukkan átta um kvöldið vorum við fararstjórarnir í DR mætt í Ocean World Marina & Casino í Puerto Plata á norðurströnd eyjunnar.  Við áttum pantað borð á þessum frábæra stað og notuðum fyrstu mínúturnar til að tala við vini og ættingja og óska þeim gleðilegs árs.  Síðan tók við glæsilegur kvöldverður og á miðnætti skáluðum við í kampavíni og nutum þess að horfa á flugeldasýningu, sem jafnaðist þó ekki á við það sem við þekkjum best að heima. 

Þetta var mjög skemmtilegt kvöld og við nutum þess alveg sérstaklega að ræða ekki um vinnuna heldur allt annað milli himins og jarðar.  Að lokum héldum við svo heim á hótel og spiluðum Domino fram undir morgun enda frídagur daginn eftir.  
Á ströndinni í SosúaÁ nýjársdag nutum þess svo að hvíla okkur í hvítum sandinum og fagur bláum sjónum á ströndinni í litla bænum Sosúa.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband