Konstantin skýrður á fjallinu Filerimos

 

Bakgarður klaustursinsÞað var dálítill asi á okkur eftir komu Heimsferðavélarinnar í dag.  Eftir að allir farþegar voru komnir á sín hótel hentumst við heim til að skipta um föt.  Við fórum í okkar fínast púss og brunuðum upp fjallið Filerimos, alveg upp á topp að Church of Our Lady.  Þar voru prestarnir í óðaönn að koma fyrir altari í bakgarði klaustursins og gestirnir streymdu að.  Irini vinkona okkar og maðurinn hennar tóku okkur fagnandi og móðir hennar nældi í okkur lítið fallegt merki með krossi og bókstafnum K, sem stendur fyrir fyrsta staf í nafni barnsins - Konstantin, sem átti að fara að skíra.

Athöfnin byrjaði.  Prestarnir voru tveir og til hliðar höfðu Guðforeldrarnir sem voru þrír komið sér fyrir með barnið.  Prestarnir lásu þeim nokkrar bænir og það vakti athygli mína að foreldrar barnsins tóku ekki neinn þátt í þessari athöfn og heldur ekki síðar þegar sjálf skírnarathöfnin hófst.  Allt var í höndum prestanna og Guðforeldranna.  Drengurinn grenjaði þessi ósköp eins og við var að búast, var hreint ekkert með á öllu þessu tilstandi.

Við altarið hafði verið komið fyrir allstórum skírnarfonti.  Þegar athöfnin stóð sem hæst var barninu lyft upp yfir skírnarfontinum meðan prestarnir tónuðu eða sungu í gríð og erg og þá tók sá stutti sig til og sprændi beint ofan í vatnið heilaga áður en honum var dýft ofan í þrisvar sinnum.  Prestarnir og Guðforeldrarnir tónuðu enn meira, krossuðu barnið í bak og fyrir og loks tók amma við barninu og þurrkaði og færði í hvít klæði.  Að lokum var barnið blessað smá í viðbót og athöfnin búin. 

Nú tóku foreldrarnir barnið til sín og viðstaddir mynduðu röð til að óska aðstandendum til hamingju og hlutu að launum tvær litlar gjafi til að taka með sér til minja.  Konstantin hafi verið skírður og tekinn inn í Grísku orthodox kirkjuna í fallegri athöfn á fjallinu Filerimos.

Ég var myndavélar laus en Hildur Ýr tók helling af myndum sem ég set inn síðar en minningarnar frá þessari fallegu athöfn og vinarboði geymi ég í huga mínum um ókomna tíð.


Mátti til með að setja inn þessa mynd af Chloe og Erlu.......

Chloe og Erla

en hún var tekin fyrr í sumar þegar þær mæðgur mættu í Hús Nikulásar í bænum Pastida á Rhodos


Boðið í skírnarathöfn á fjallinu Filerimos

 

BoðslortÍ vikunni barst mér óvænt boðskort, frá Irini einni af inlendu leiðsögukonunum okkar, þar sem boðið í skírnarathöfn en hún er að skíra þriðja barnið sitt.  Athöfnin á að fara fram í Grísku Orthodox kirkjunni uppi á fjallinu Filerimos (fjallinu mínu hér ofan við bæinn Ialyssos) á laugardaginn kl. 18:30.  Ég hef ekki enn sem komið er haft tækifári á að fara í messu hér á Rhodos svo þetta verður örugglega mjög áhugavert.  Kirkjan sem skírt verðu í er hin fræga Church of Our Lady of Filerimos, Byzantine kirkja og er hluti af klaustrinu sem þarna er.

 

 

 

Ortaxox presturKirkjan á Filerimos

 

 Orthodoxa-prestur og mynd úr kirkjunni á Filerimos


Skilaboð fyrir verslunamannahelgina: Tíminn er verðmætari en peningar.

Þú getur fengið meira af peningum en ekki meiri tíma. 

I'm a great believer in luck.......

Fresh-Brew-for-your-Brain-2and I find the harder I work, the more I have of it


Kimmý, leyndarmálið, Carnegie og Hill

 

KimmýKimmý fararstjóri Heimsferða og starfsfélagi minn á Csta del Sol setti inn skilaboð á MySpace síðuna mína um daginn þar sem hún bauðst til að vera "MaySpace-vinur" minn.  Ég tók því auðvitað fagnandi og svaraði um hæl að hún hefði bjargað deginum hjá mér enda átti ég bara fjóra vini þar fyrir, þrjú af fjórum börnum mínum og svo Þóru Katrínu starfsfélaga minn hér á Rhodos.  Ég kann voða lítið á þessa síðu og hef því frekar kosið að nota Mogga-bloggið mitt.

 

Næstu skilaboð frá Kimmý voru svona:

Bjargaðir deginum.

Mikið er ég glöð að hafa bjargað deginum hjá þér! Það þýðir að mínum degi sé bjargað og þá eru allir glaðir.

Heyrðu, hefur "The Secret" farið fram hjá þér eins og mér??
Þetta er lífsspeki sem er að tröllríða öllu og öllum. Kannski ert þú langt á undan mér og löngu búin að stúdera þetta í bak og fyrir, en ef ekki þá á ég linkinn á netið til að sjá heimildarmyndina.
Láttu mig vita ef þú ert ekki með þetta, og ég sendi það um hæl.

Það gengur rosa vel hér á Costunni og búið að vera nóg að gera.
Við erum sem sagt eins og blóm í eggi.

Gaman að heyra frá þér og bestu kveðjur á Rhodos.
Kimmý

 

The SecretHér eru skilaboðin mín til Kimmý:

Hæ Kimmý gaman að heyra frá þér aftur og frá bært að lesa að ég hafi líka bjargað þínum degi.

Nei The Sectret hefur ekki farið fram hjá mér.  Vegna vinnunnar minnar á Íslandi (námskeiðanna) fylgdist ég með þegar bókin og svo myndin komu út og kynnti mér þetta fyrirbæri strax. Ég sá líka myndina í Háskólabíói skömmu áður en ég fór út í vor.  Flestir eru sammála um að hér er á ferðinni einhver best heppnaða markaðssetning sem um getur á svokallaðri "sjálfshjálpar bók" sem um getur.  Áströlsk kona að nafni Rhonda Byren er í þessari hugmynd að taka saman margt af því áhugaverðasta sem spekingar heimsins hafa verið að fjalla um í gegn um tíðina þar sem skilaboðin eru  "að einstaklingurinn geti nýtt eigin viljastyrk til að stjórna hugsunum sínum, tilfinningum, athöfnum og árangri. Hér er ekki um nýjar aðferðir að ræða heldur er hér lögð áhersla á að deila aðferðunum með sem flestum til aukins árangurs og velgengni fyrir alla sem hafa áhuga á. Myndbandið The Secret er áhugaverð blanda af leiknum atriðum og umfjöllun valdinna fyrirlesara sem eiga það sameiginlegt að aðstoða aðra við að ná hámarksárangri. Í bókinni The Secret er að finna ýmsa fróðleiksmola sem veita dýpri innsýn" (tilvitnun af netinu).

 

Mín skoðun er að Dale Carnegie sé mun merkilegri "lífsspeki" og um leið árangursríkari. Ég hvet þig eindregið til að lesa bókina hans "Vinsældir og áhrif" (á ensku How to vin friends and influence people) en hún hefur verið mér leiðarljós í meira en 30 ár.  Í upphafi bókarinnar segir: Átta atriði sem þessi bók mun hjálpa þér að ná:

  1. Kippt þér út úr og mikilli vanafestu, veitt þér nýjar hugmyndir, nýjar hugsjónir og nýjan metnað.
  2. Kennt þér að eignast vini fljótlega og auðveldlega
  3. Aukið vinsældir þínar
  4. Hjálpað þér að vinna fólk á þitt band
  5. Aukið áhrif þín, álit og afköst
  6. Kennt þér að taka kvörtunum betur, forðast þrætur og gera samskipti þín við fólk lipur og skemmtileg
  7. Gert þið að betri ræðumanni og skemmtilegri í samræðum
  8. Hjálpað þér að vekja eldmóð hjá félögum þínum.

Bók þessi hefur gert allt þetta fyrir meira en 10 milljónir lesenda á þrjátíu og sex tungumálum.

Think and grow richBókin kom upphaflega út 1937 en er nú fáanlega í endurskoðaðri útgáfu.  Aðra bóklangar mig líka að nefna en hún heitir "Think and grow Rich!" eftir Napoleon Hill.  Þetta er án efa í mínum huga besta og gagnlegasta bók sem nokkru sinni hefur verið skrifuð (að Biblíunni frátalinni auðvitað). Hill segir í bókinni "Whatever the mind can conceive and believe, it can achieve"  Bókin fjallar ekki um það að verða RÍKUR í þeim skilningi sem við notum svo oft heldur mikið frekar að verða ríkur af því að verða betri persóna, sem gæti að sjálfsögðu gert mann ríkari af veraldlegum gæðum.  Bók þessi hefur líka komið út í milljónum eintaka en því miður aldrei verið þýdd á Íslensku, sem er alveg ótrúlegt þegar maður hugsar til þess hversu mörum hún hefur nú þegar hjálpað.  Á kápu bókarinnar sem ég á er tilvitnun í Brian Tracy þar sem hann hefur þetta um bókina að segja: "This is the best singel book on personal succes ever written; it made me a millionaire - starting from nothing."

 

Kimmý mín. Þetta er auðvitað orðið fáránlega langt svar og fyrirgefðu mér að hafa svarað þessu á blogg-síðunni minni. Spurningin þín vara bara svo spennandi og mig dauðlangaði hvort hið er einmitt að skrifa svolítið um þessar þrjár bækur.

Enn og aftur bestu kveðjur á Costuna og endilega notið þið tímann sem er afgangs (ef einhver er) vel.


Chose a job you love.....

......and you will never have to work a day in your life

Veldu starf sem þú elskar og þú munt aldrei þurfa að vinna einn einasta dag efti þaðpollyanna-poster3


Fallegir tónleikar - sungið um ástina og tregann

 

Alexiou-6S.l. laugardagskvöld bauð umbinn okkar hann Marios okkur með á tónleika í þorpinu Kiotari, sem er mjög sunnar lega á Rhodos.  Við byrjuðum á að fá okkur ágætan kvöldverð á Hotel Aldemar Paradisi og keyrðum svo í einum spreng niður til Kiotari.

Þetta voru flottir tónleikar með söngkonunni (eða öllu heldur dívunni) Haris Alexiou þar sem hún tók eingöngu lög eftir tónskáldið Manos Loizon. Öll lögin sem þarna voru flutt fjölluðu um ástina og tregan og því var ekki mikið "rokk og ról" þetta kvöld. 

Glæsilegu sviði hafði verið komið fyrir á ströndinni í þessu litla þorpi, þannig að maður sat bara í sandinum og naut tónlistarinnar.  Marios og Stasey frænka hans, sem líka var með okkur, þýddu annað slagið fyrir okkur textana og flestir tónleikagestir sungu með nánast hvert einasta lag.  Þetta var eitthvað sem allir þekktu og kunnu, bæði ungir og gamlir þótt langflestir tónleikagesta sem voru um 5000 væru komnir af táningsaldri.  Þessi þekkta söngkona, sem allir eyjaskeggjar hér virðast þekkja, hefur samkvæmt heimasíðu hennar, gefið út 33 hljómplötur. Hildur Ýr tók nokkrar ljósmyndir sem ég set inn á síðuna seinna.


Alþjóðlegur frídagur fararstjóra

 

samp4c58b40c5a93d291Hef verið hálf latur við að skrifa að undanförnu enda í nógu að snúast.  Dagarnir fljúga áfram og áður en ég veit af er kominn ágúst og maður verður að fara að syngja "Einu sinni á ágúst kvöldi - austur í þingvallasveit".

Hrefna, Imma systir hennar og Sigrún vinkona Immu eru hér á Rhodos þessa viku.  Þær búa í góðu yfirlæti á Rhodos Palace og svífa hér um eins og drottningar. Þær komu með mer í skoðunarferð um Rhodosborg á mánudaginn og afrekuðu það fyrsti gesta að tína tvisvar af hópnum okkar í sömu ferð.  Í fyrra skiptið reddaðist það, en ég sá hvar þær voru að vafra en í síðara skiptið var það þegar við vorum að fara í rútuna heim á leið og þá varð ég að skilja þær eftir í gamla bænum. Svo sem ekki tiltöku mál og þær héldu bara áfram að skoða bæinn og fóru svo heim á hótel í leigubíl og höfðu gaman að.  Ég fór svo eitt kvöldið í vikunni út að borða með þeim og það var mjög ánægjulegt. Gaman að heyra af krökkunum hennar Immu og gaman að upplifa hvað þær fíluðu gríska matinn. Þær fara heim á morgun, eftir vonandi góða og sæmilega heita viku hér á Rhodos.

 

Í dag er föstudagur, sem er sunnudagurinn okkar  fararstjóranna (og alþjóðlegur frídagur fararstjóra).  Ég er á neyðarvaktinni og nota líka tímann til að fara með í þvottahúsið, taka til og blogga smá. Í kvöld förum við svo með stórann hóp á Griskt skemmtikvöld og það verður örugglega bara gaman.

 

Vona að allir lesendur mínir hafi það bærilegt og bið kærlega að heilsa öllum sem við mig vilja kannast.


Chloe er ekki á leið til Íslands í bráð, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins

Þetta hressilega viðtal við Chloe birtist í dag (viðtalinu fylgdi þessi ljómandi falleg mynd sem ég tók af henni hér á Rhodos um daginn):

Ekki á leið til Íslands í bráð

Fréttablaðið, 18. júlí. 2007 00:30

Chloe á Rhodos

Fyrirsætan Chloe Ophelia Gorbulew sest á skólabekk í Northumbria University í Newcastle í haust, en þar hyggst hún læra arkitektúr. „Mig hefur lengi dreymt um að læra arkitektúr," segir Chloe.

 „Ég kláraði listnámsbraut í Iðnskólanum í Reykjavík og ætlaði alltaf í skóla í Kaupmannahöfn. Það datt upp fyrir þannig að ég flutti hingað, fann þennan fína skóla og komst inn. Ég er mjög sátt við það. Hér er meiri áhersla lögð á verkfræðihliðina en víða annars staðar enda er skólinn þekktur fyrir stóra og öfluga verkfræðideild. Við fáum því ekki að teikna skrautbyggingar sem ómögulegt er að byggja," segir hún og hlær.


Námið er til BA gráðu og tekur þrjú ár. „Svo er hægt að fara ýmsar leiðir í þessu eftir það. Mér skilst reyndar að þeir sem kláruðu BA námið síðast hafi margir hverjir strax fengið spennandi atvinnutilboð í Bandaríkjunum og víðar. Ef maður yrði svo heppinn væri gaman að prófa það og huga svo að mastersnámi síðar."


Chloe hefur búið í Bretlandi síðan í lok nóvember en fyrir þann tíma starfaði hún sem fyrirsæta á Indlandi fyrir Eskimo. Hún segir dvölina á Indlandi hafa verið lærdómsríka. „Indland var æðislegt. Það er gaman að upplifa eitthvað sem er svona allt öðruvísi. Maður lærði helling og kynntist frábæru fólki. Svo lærði ég að kunna að meta indverska matargerð enda sást það á manni þegar maður kom tilbaka!"


Sem fyrr segir hefst námið ekki fyrr en í haust en Chloe starfar í augnablikinu sem útstillingahönnuður í húsgagnaversluninni Ilva. „Keðjan var keypt af Íslendingum snemma á árinu. Maður virðist einhvern veginn alltaf enda á því að vinna fyrir Íslendinga hvar sem maður er," segir Chloe hlæjandi. Hún býr í parhúsi í Newcastle ásamt kærasta sínum, Árna Elliott Swinford og hundinum þeirra. „Við getum leigt hús í Newcastle fyrir helmingi minni pening en við myndum borga fyrir litla tveggja herbergja íbúð í London. Það var ein af ástæðum þess að ég hafði ekki áhuga á að vera þar, það er einfaldlega of erfitt að draga fram lífið."


Chloe segir að draumurinn sé að eignast eigin arkitektastofu í framtíðinni. Hún segist jafnframt ekki vera á heimleið í bráð. „Við erum alveg til í að flytja til Íslands einhvern tímann en það er ekki á dagskránni í bráð. Draumurinn er að stofna stofu, búa í húsi eftir sjálfa mig og vinna við að teikna falleg hús fyrir fólk - að skilja eitthvað eftir sig."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband