Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Einkennilegir dagar á Íslandi – hnífasett og leiðinda umræða, sem hellist yfir þjóðina

Með fararstjórunum í DóminískaÞetta er nú meira "útstáelsið" á mér þessi misserin. Kom heim úr Karabíska hafinu á laugardagsmorgun og ekki enn búinn að ná upp tímamuninum þegar ákveðið er að ég fari aftur til Dóminíska lýðveldisins á fimmtudaginn kemur þann 24. jan. Ég held að ástæðan sé að stúlkurnar sem þar er fararstjórar hafi saknað mín - ég ætla a.m.k. að halda í þá trú þangað til annað kemur í ljós.

Ég var ekki fyrr komin heim en framsóknarmaðurinn Björn Ingi stóð ljóslifandi í sjónvarpinu og sagðist vera með heilu hnífasettin í bakinu (þeir kasta hnífum sem eiga þá). Um þetta snerist mikil umræða, væntanlega til að reyna að ná fjandans kutunum úr bakinu á manninum. 

41383167Því verki var örugglega ekki lokið þegar allt ætlaði vitlaust að verða í borgarpólitíkinni. Nýr meirihluti varð til á hálftíma þrátt fyrir leynilegar viðræður í marga dag og nú er kominn nýr borgarstjóri og þá um leið nýr meirihluti í borginni. Læknirinn (sem líka var sjúklingur) og frændi vinar míns er orðinn borgarstjóri í Reykjavík. Hann var einu sinni í sama stjórnmálaflokki og ég og hann hefur einu sinni sprautað mig gegn flensu en sú sprauta klikkaði, sjaldan eða aldrei fengið eins hundleiðinlega flensu.

Umræðan um þetta brölt á örugglega eftir að verða drepleiðinleg alveg eins og mér er sagt að umræðan um skipan Þorsteins Davíðssonar sem dómstjóra hafi líka verið drepleiðinleg. Þorsteinn er ágætur, þekki hann og hef unnið með honum að góðum málum

Það er því ágætt að vera aftur á útleið og sleppa við allar þessar leiðinda umræður sem hellast yfir þjóðina eins og flensa sem sprautur læknisins hafa ekki unnið á.

Ég og foringinn í Selva 2005Ég kem aftur heim þann 15. febrúar og fer svo sólarhring seinna á skíði til Ítalíu með vinum mínum í SF-Alp. Þar verður engin leiðinda umræða í gangi bara eldheitar umræður um allt og ekki neitt þar sem menn takast á af fullum kröftum í þeim tilgangi einum að skemmta sér og öðrum. Engir hnífar í bakið, ekkert kjaftæði,  bara kjafturinn og klofið eins og kerlingin sagði. En um fram allt verður skíðað, skíðað og aftur skíðað.


Guðmundur frændi minn er látinn

Guðmundur GíslasonÞað var erfitt að koma heim í morgun eftir 6 vikna dvöl í Karabíska hafinu.  Þegar ég fletti Morgunblaðinu um hádegisbil í dag sá ég að Guðmundur frændi minn Gíslason hafði látist þann 2. janúar s.l.  og jarðarförin farið fram 10. janúar.  Mér þótti mjög sárt að hafa ekki fengið fregnir af þessu en vafalaust er um að kenna bæði lélegu símasambandi þar sem ég var og eins því að netsambandið var heldur ekki of gott.

Guðmundur frændi var fæddur á Seyðisfirði 17. desember árið 1926 og var því liðlega tvítugur um það leiti sem ég kom í heiminn.  Svo lengi sem ég man var Guðmundur uppáhalds frændi minn og vinur.  Hann var í mjög mörgu mín fyrirmynd eða "idol-stjarna" eins og það er kallað núna. Alla mína barnæsku bjó hann í húsinu hjá afa og ömmu á Austurveginum og eftir að hann kvæntist Jónhildi þegar ég var 6 ára bjuggu þau sín fyrstu hjúskaparár þar. Guðmundur frændi var fyrirmynd mín á skíðum, hann var góður og kunnáttusamur ljósmyndari sem átti sína myrkrakompu og vann sínar myndir sjálfur. Hann smitaði mig af hvoru tveggja þó aldrei næði ég jafn góðum árangri og hann. Guðmundur Gíslason var einn vandaðisti maður sem ég hef kynnst. Hann var í Útvegsbankanum á Seyðisfirði með Theodóri afa og síðar Landsbankanum alla sína starfævi og þar sannaðist það á hverjum degi hversu vandaður hann var.  Ég á Guðmundi frænda margt að þakka og það er margs að minnast þegar ég lít yfir genginn veg en ég læt þetta nægja að sinni. Jónhildi, Guðrúnu Valdísi, Friðrik og Val sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Vertu sæll kæri frændi og takk fyrir samleiðina.


Nýju ári fagna í Dóminíska lýðveldinu

Áramót. Gísli, Þóra Björk, Gunnþórunn, Fríða Dögg og HéðinnÁramótin gengu í garð hér fjórum klukkustundum síðar en heima á Íslandi en voru engu að síður bæði góð og skemmtileg.  Klukkan átta um kvöldið vorum við fararstjórarnir í DR mætt í Ocean World Marina & Casino í Puerto Plata á norðurströnd eyjunnar.  Við áttum pantað borð á þessum frábæra stað og notuðum fyrstu mínúturnar til að tala við vini og ættingja og óska þeim gleðilegs árs.  Síðan tók við glæsilegur kvöldverður og á miðnætti skáluðum við í kampavíni og nutum þess að horfa á flugeldasýningu, sem jafnaðist þó ekki á við það sem við þekkjum best að heima. 

Þetta var mjög skemmtilegt kvöld og við nutum þess alveg sérstaklega að ræða ekki um vinnuna heldur allt annað milli himins og jarðar.  Að lokum héldum við svo heim á hótel og spiluðum Domino fram undir morgun enda frídagur daginn eftir.  
Á ströndinni í SosúaÁ nýjársdag nutum þess svo að hvíla okkur í hvítum sandinum og fagur bláum sjónum á ströndinni í litla bænum Sosúa.  


Gleðilegt nýtt ár í Karabískahafinu

Sendi öllum ættingjum mínum og vinum góðar áramótaóskir héðan frá Dóminíska lýðveldinu.

Það er heldur að lengjast í mér hérna niðurfrá. Chloe fór til englands þann 29. des. og Erla fór heim til Íslands þann 30. des. og lenti heima á gamlársdag.  Árið byrjaði ekki mjög vel hjá okkur þar sem á nýjársnótt kviknaði í bílageymslunni okkar. Mér skilst að bíllinn hennar hafi sloppið en við vitum ekki enn hvort einhverjar skemmdir hafi orðið á dóti sem við erum með þar í geymslu.

Núna er áætlað að ég komi heim þann 19. jan. en reynslan hefur kennt mér að það getur breyst á síðustu stundu en þetta er alla vega áætlunin nú um stundir.

Góðar kveðjur til allra sem þetta lesa 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband