Að leika sér með hákörlum og höfrungum

Þóra Björk, Gunnþórunn, Fríða Dögg og GísliLoksins kom að því. Við fararstjórarnir erum búin að vera á leiðinni í skemmtigarðinn Ocean World í margar vikur. Vissum hér um bil hvað var í boði en höfðum ekki haft tækifæri á að fara sjálf í garðinn vegna anna. En loksins kom dagurinn. Við vorum mætt eldsnemma morguns og starfsmenn garðsins settu upp fyrir okkur dagskrá. Stelpurnar sáu alveg um þetta og svo var mér tilkynnt hvað við ættum að gera; fyrst áttum við að synda með stórskötum og gefa þeim eitthvað að borða, þá tæki við náin kynni við hákarla og snorkl í hákarlalauginni og loks skemmtun og sund með höfrungum!!! Mér brá rosalega, ég sem kominn var bara til að skoða.  Þorði þó ekki að láta á neinu bera og reyndi að sýna ró og fullkomna yfirvegun enda lífsreyndur karlmaður á meðal ungra og hraustra kvenna.  

Ocean WorldVið byrjuðum sem sagt á að fá allskonar leiðbeiningar fyrir þetta "lífhættulega" uppátæki og síðan var að gera sig kláran með björgunarvesti, froskalappir og snorkl-græjur. Ég var hér um bil að guggna þegar ég í einskonar leiðslu fór út í laugina með skötunum. Þetta var svona til að venja okkur við. Þurftum að passa vel upp á tær og fingur því sköturnar eiga það til að "totta" mann við minnsta tilefni. Svo vorum við látin gefa þeim að borða úr hendinni og við það tækifæri var ein þeirra svo aðgangshörð við Gunnþórunni að úr blæddi.

Þá var komið að hákörlunum og nú var minn maður um það bil að fara á taugum. Ég hríðskalf af hræðslu en sagði stelpunum að mér væri svolítið kalt.

Nú kom líka í ljós að við hákarlalaugina var stórt áhorfendasvæði og fólk dreif að úr öllum áttum. Við vorum sem sagt skemmtiatriði dagsins. Ég lét mér detta í hug að kannski væri besta skemmtiatriðið að játa sig sigraðan og ganga á brott en ég eiginlega guggnaði á því líka, greip til æðri máttar og lét mig hafa það sem að höndum bar. Þegar upp var staðið voru þetta hinar vænstu skepnur og gerðu okkur ekki mein þrátt fyrir blóðugan fingur eins fararstjórans. Mér fannst bráðskemmtilegt að snorkla með þessum dýrum og reyndi að hugsa bara um kæstan hákarl á þorrahlaðborðum heima á Íslandi.

Gísli snorklarLoks var komið að höfrungunum. Þeir byrjuðu á að sýna listir sína fyrir okkur og síðan fórum við tvö og tvö í einu til að leika við einn þeirra. Ýmist dönsuðum við þá eða knúsuðum og kysstum. Lokaatriðið var svo að koma sér fyrir langt úti í laug með hendurnar beint út frá öxlunum og bíða þess að tveir höfrungar renndu sér upp að manni og þá greip maður um bakuggana og þeir rifu mann með sér á ógnar hraða þannig að kroppurinn þeytti kerlingar á vatninu.  Þetta var yndislegur dagur með skemmtilegu fólki. Við vorum öll, ég Gunnþórunn, Fríða Dögg og Þóra Björk ásamt systur og mági Gunnu þeim Andreu og Brjáni, í sjöunda himni með þennan frábæra skemmtigarð þar sem líka er hægt að fara á kvöldin á "gala-kvöldverð, Vegasskemmtun og spilavíti.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband