Nú er bara að bíta á jaxlinn og vona það besta

Nú fer að styttast í dvöl minni hér í Philadelphia að þessu sinni því ég flýg  heim á morgun (laugardag) og vera mættur í hasarinn á sunnudag.
Þrátt fyrir allt þá er þetta búinn að vera mjög góður tími og það er orðið alveg ljóst að lyfjameðferð Elsu er að skila tilætluðum árangri. Hún fór í "skanna" fyrir um 10 dögum og átti svo fund með krabbameinslækninum sínum snemma í þessari viku. Niðurstöðurnar eru áfram þær sömu; allt á réttri braut.  Það sem hinsvegar er að setja æ meiri strik í reikninginn eru flogaköstin.  Þau valda því að hún dettur út og getur ekki tjáð sig í nokkurn tíma á eftir. Eftir köstin kemur líka mikil þreyta. Þessi köst gera engin boð á undan sér og koma stundum þegar verst stendur á. Hún er að taka lyf sem eiga að hemja þetta eitthvað en virka mis vel og hafa töluverðar aukaverkanir. Hún ætlar trúlega að taka sér hvíld frá krabbameinslyfjunum í desember en halda síðan áfram næstu sex mánuðina og taka þá nýjar ákvarðanir varðandi framhaldið.
Nú hefur loksins verið ákveðið að hún fari inn á spítala til að láta rannsaka orsakir þessa og vonandi finna þeir um leið betri lyf sem virka betur og hafa minni aukaverkanir.  Hún leggst inn á spítalann í dag og reiknað er með að hún þurfi að vera þar í um viku tíma.  Ekki beint besta tímasetningin þar sem ég fer heim á morgun en tengdaforeldrar hannar ætla að koma frá Buffalo og vera hér með krökkunum meðan hún er á spítalanum. Þetta er sami spítalinn og hún var á fyrir um einu ári síðan en að þessu sinni verður hún í annarri byggingu. Ég hef mjög sterka tilfinningu fyrir því að eitthvað gott komi út úr þessu og vonandi svo mikið að hún geti aftur farið að keyra því það mundi gera lífið hér á Stauffer Road svo miklu auðveldara.´
CIMG1691Eins og ég sagði í upphafi þá er þetta búinn að vera góður tími ekki síst vegna þess að ég hef fengið að vera með afa-börnunum mínum og þau hafa verið mér eins yndisleg eins og hægt er að hugsa sér. Sonja er búin að finna pottþéttar leiðir til að stríða mér en segir svo alltaf þess á milli að hún elski afa. Raquel er orðinn mikill vinur minn og kveður mig alltaf þegar hún fer í skólann með "höggi" (faðmlagi) og segist munu sakna afa mjög mikið þegar hann fer heim. Okkur Victori kemur líka afar vel saman. Hann er mjög stilltur og prúður strákur, djúpt hugsi og mér mjög kær. Hann og Raquel er bæði dugleg í skólanum og með topp einkunnir í öllum greinum. Heimanámið er alltaf þeirra fyrsta verk þegar þau koma heim út skólanum og ekki farið út að leika sér fyrr en því er lokið.
Birna og Michael Gísli búa í Bristol, sem er í rúmlega klukkustundar fjarlægð en eru búin að vera dugleg að kíkja í heimsókn. Eins fórum við einn sunnudaginn í heimsókn til þeirra til að kíkja á nýju íbúðina og um leið í 70 ára afmæli Peg ömmu Michaels. Hann er duglegur í nýja skólanum sínum og kennararnir eru mjög ánægðir með hann. Þau ætla að koma til okkar í kvöld og vera hér í nótt til að geta keyrt mig á JFK flugvöllinn í New York á morgun.
Það hefur líka mikið verið í gangi þennan tíma og bera hinar sögulegu kosningar þar sjálfsagt hæst. CIMG1862Eins vara líka Race for Hope gangan mikil upplifun. Þar voru samankomin á bilinu fimm til sexþúsund manns í þeim tilgangi að vekja athygli á sjúkdómnum heilakrabbamein og safna fyrir rannsóknum á honum. Elsa var auðvitað í hópi "survivors" en við hin í hópi ættingja og vina. Liðið okkar hét Elsa´s Vikings og við vorum öll með víkingahatta sem vöktu mikla athygli ekki síst fréttamanna. Gangan hófs og endaði við Rocky-tröppurnar frægu fyrir framan Listasafnið í Philadelphia og auðvitað tók maður smá skokk upp tröppurnar á hætti Sylvester Stallone. Þá má ég ekki gleyma Hrekkjavökunni (Halloween) sem eins og í fyrra var stórhátíð barnanna með með tilheyrandi búningum, graskerum og ótal kílóum af sælgæti.
Ég er mjög kvíðinn að koma heim í allt vesenið sem ég hef þó fylgst með af og til. Hér er umræðan og ástandið í allt öðrum gír og í raun óhætt að segja að töluverð bjartsýni sé ríkjandi. Mike vinnur CIMG1793hjá fyrirtæki sem heitir Comcast og er stærsti dreifingaraðili á sjónvarpsefni, síma- og netþjónustu hér á austurströndinni og hjá því fyrirtæki eru breytingar eins og hjá flestum öðrum. Honum var tilkynnt í fyrradag að hann ætti að taka að sér fleiri og flóknari verkefni á næstu mánuðum sem eru góðar fréttir og þýða að hann er eins öruggur í sínu starfi og hægt er að vera.  
Nú er bara að bíta á jaxlinn og koma sér heim á klakann og vona að þetta reddist allt saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Gísli.

Megi guð og gæfa vera með Elsu og ykkar  fjölskyldu. Og umvefja ykkur öll á þessum erfiðum tímum. Guð blessi ykkur öll.  

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 14.11.2008 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband