Fjölskyldan í fínum málum

 

Það er orðið allt langt síðan ég tók saman yfirlit yfir það sem mín tvístraða fjölskylda er að aðhafast um þessar mundir en þessu bloggi er einmitt ætlað að ver svona einhverskonar brú milli okkar þó svo að sá sem þetta skrifar sé nær alltaf í aðalhlutverki.
ameríka 024-1Elsa skrifaði mér fyrir nokkru: "Ég vildi bara láta vita að allt gengur vel hjá mér. Síðasta heila-skannið mitt var í gær og ég fór til læknisins í dag til að fá niðurstöðurnar. Læknirinn útskýrði að ég er enn með svolítið mikinn örvef þar sem æxlið var sem var fjarlægt í aðgerðinni í október og þá er svæðið sem æxlið var á ennþá umtalað sem æxli. Eina leiðin til að vita hvort að allt æxlið náðist er að fylgjast vel með hvort það vaxi aftur og að fylgjast með breytingum á svæðinu. Í síðasta skanni sáust engar breytingar (jibby!!!)"
Nú eru liðnir níu mánuðir síðan aðgerðin var gerð og við fyllumst bjartsýni með hverjum degi sem líður.

Birna og Michael Gísli búa í sumar hjá ömmu hans Michael og af þeim allt gott að frétta. Michael Gísli kann vel við sig hjá ömmu og vonandi er hann duglegur að æfa sig á básúnuna í sumar. Birna sækir vinnu í Bristol, sem er ekki allt of langt frá.
260836AGylfi er alltaf að organísera Organ og hefur í nógu að snúast og þann 1. ágúst eru þau að halda upp á eins árs afmæli staðarins vinsæla í miðbænum. Hann er að fara í tónleikaferð um Evrópu sem hefst 15. september í París og síðan eru borgirnar þessar; Barcelona, Madrid, Torino, Milano, Bad Bonn, Heidelberg, Hamborg, Munsters, Brussel, Leuven, Amsterdam, Gronningen,  Kaupmannahöfn, Gautaborg, Oslo, Stokkhólmur, Malmö og svo endað í Berlín þann 9. október. Sem sagt "25 gigg á 27 dögum" eins og Gylfi segir. Hljómsveitin heitir Borko og í raun einn maður með band á bak við sig.  Hann gefur út á Morr Music í Þýskalandi sem er gömul og virt útgáfa í þessum geira, og í raun heimsfræg sem slík.
ChloéChloé er alltaf í Newcastle og er í fríi frá skólanum í sumar og undirbýr sig fyrir átök vetrarins og er einnig að vinna á veitingastað. Hún er nýlega búin að fá niðurstöður úr vorprófum og verkefnum vetrarins og komst í gegn um þetta allt með glans. Til hamingju Chloé mín við samgleðjumst þér öll og erum stolt af þér. Hún er að skoða möguleika á að kíkja í heimsókn til mín um miðjan ágúst.  Erla er alltaf heima á Fróni og amma María er alltaf jafn jákvæð og hress. Þær eru að plana heimsókn til Chloé en ekki afráðið hvenær það verður.

Bréf frá Ásdísi systur:
Mín ágæta systir Ásdís, sem útskrifaðist sem djákni í vor sendi mér fréttir að heiman fyrir ekki alllöngu. Ég vona að Ásdís fyrirgefi mér að ég set skrifin hennar hérna beint inn

Ásdís"Það fjölgar í fjölskyldunni í gríð og erg, veit ekki hvort einhver hefur haft rænu á að segja þér fréttirnar. Daníel og Sólrún eignuðust dóttur 23.júní sem nefnd var "Sara Dís"og Dóra og Grétar eignuðust dreng 30.júní sem er ennþá ónefndur.
Annars er allt mjög gott að frétta hjá okkur og stórfjölskyldunni. Var í grillpartýi í gærkvöldi hjá Tóta og Millu en Tóti átti afmæli. Theodór og allt hans slekt (nema auðvitað Dóra og co) er búinn að vera í bústaðnum fyrir austan hjá pabba í einar þrjár vikur, næst fer Maddý í tvær vikur og svo rekum við Tony lestina ásamt Daníel og co um verslunarmannahelgina í nokkra daga. Svo er fólk búið að vera út og suður eins og gengur, Milla gengur á nokkur fjöll í viku, hleypur Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur og svoleiðis. Maddý og Óli voru að fá sér hund og Óli situr heima í fríi og les  um sálarfræði hunda og Maddý kvartar yfir því að hann las aldrei sálarfræði barna.

4c949f27415ca36cPabbi er búinn að koma sér upp netsambandi í bústaðnum og er með tölvuna og fylgist grannt með öllu sem gerist, barnsfæðingum og svoleiðis og örugglega netsíðunni þinni.Hann verður í bústaðnum í mest allt sumar. Portúgalsferðin hans var víst mjög fín.
Við Tony erum mest heimvið í sumar, því hann er nýbúinn að skipta um vinnu og á ekki sumarfrí.  Hann starfar nú fyrir ensku ferðaskrifstofuna Artic Experience og vinnur í London eina viku í mánuði en annars heima og er alsæll. Skipuleggur íslandsferðir fyrir Bretana.

Ég kláraði djáknanám frá HÍ í vor, og er mjög ánægð með það, er nú í starfsþjálfun, var m.a. viku á Löngumýri í Skagafirði í sumarbúðum aldraðra í prýðisveðri. Emelía er á dansnámskeiði í New York, hún stefnir á framhaldsnám í dansi og coreography. Pétur er í Listnámi í San Francisco en er nú í sumarfríi heima og Davíð er enn í menntaskóla á listabraut, og stefnir á nám í ljósmyndun. Daníel starfar hjá símafyrirtækinu Nova, er þar verkefnisstjóri og mjög ánægður.

Ég fylgist með þér og þínum í fjarlægð, gaman að þú skulir halda úti netsíðu, þannig að þú ert ekki alveg týndur og tröllumgefinn. Gott að heyra hvað gengur vel hjá krökkunum þínum og sérstaklega Elsu."
 
Til hamingju Ásdís og þúsund þakkir fyrir skrifin. Ekki meira í bili enda kominn á þriðju blaðsíðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill Gísli.

Frábært að lesa frá þér pistlana. Takk, takk. Löngum vitað að þú værir flottur penni. Hafði sérstaklega gaman af að lesa síðasta pistilinn, enda þarna frábærir listamenn á ferð. ( Ég held ég eigi flest allar plöturnar/cd þeirra ).

Held áfram að lesa frábært blogg frá þér.

Kveðja,

GRL

GRLudviksson (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband