Rhodos heillar - enn og aftur

 

DiagorasÞá er komið að því að halda til Rhodos á ný og brottförin er á laugardag.  Ég er fullur tilhlökkunar og tel niður mínúturnar.  Ég ætla að dvelja að þessu sinni á Rhodos fram til 20. september og á örugglega eftir að njóta hverrar mínútu.  Rhodos er yndislegur staður, þar sem sagan er á hverju strái. En það er ekki það eina sem heillar.  Rhodosbúar eru frábært fólk - eyjaskeggjar eins og við og í raun eigum við afar margt sameiginlegt. Ekki síst það að vera "skorpufólk". Á sumrum þegar ferðamannavertíðin stendur sem hæst þá vinna þeir flestir myrkranna á milli með bros á vör og fá þekki ég jafn geðgóða, hjálpsama og dugleg þrátt fyrir mikið álag.

Það verður ekki síst skemmtilegt að hitta vin minn Marios og heyra hann hvellu tenórrödd hljóma um alla miðborgina þegar honum mislíkar eða eitthvað er um það bila að fara úrskeiðis. Ég hef sagt það áður og segi það bara aftur; "þegar Marios upphefur raust sína þá dansar Rhodos"

Ég reikna með að búa í sömu íbúðinni og í fyrra í Diagorasarstræti í bænum Ialysos, sem er í um 10 km fjarlægð frá Rhodosborg.  Það er alveg dásamlegt að búa í þessum gamla og fornfræga bæ sem var á sínum tíma (fyrir stofnun Rhodosborgar) einn af þremur borgríkjum eyjunnar. Í sundinu að innganginum mínum reikna ég með að hitta gömlu hjónin sem þar búa - það verða örugglega fagnaðar fundir. Þau sitja oftast þarna úti í skugganum síðdegis þegar ég kem úr vinnunni og ósjaldan gauka þau að manni einhverju góðgæti sem þau hafa annað hvort ræktað sjálf eða frúin útbúið. Ég má til með að færa þeim eitthvað góðgæti frá Íslandi en ég hef bara ekki hugmynd um hvað það ætti að vera. Smá hangikjöt? Nei varla, verð að fá betri hugmynd.

Þóra Katrín og Hildur Ýr verða þarna líka eins og í fyrra. Betri samstarfsmenn get ég varla hugsað mér.

RhodosÉg er búinn að vera duglegur í vetur að viða að mér efni um Jóhannesar Riddarana, sem svo sannarlega settu mark sitt á Rhodos áður en tvö hundruð þúsund manna her Tyrkja náði að hrekja þá á brott og þeir settust að á Möltu og hafa síðan verið kallaðir Mölturiddarar.  Nú er bara að vinna út öllu þessu efni og vera duglegur að miðla öðrum af þessari stórmerku sögu.

Ég ætla að reina að vera duglegur að blogga frá Rhodos um leið og ég verð kominn í tölvusamband. Vona að það verði sem fyrst. Þeim sem hafa áhuga á að vera í sambandi bendi ég á Skype-símann - það kostar ekki krónu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Rhodos er æðisleg, var þarna í þrjár vikur 1984 eða 5, gestrisni eyjaskeggja var til fyrirmyndar og alls ekki laust við að mig langi að heimsækja eyjuna aftur.

Georg P Sveinbjörnsson, 22.5.2008 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband