Seyðisfjörður dregur mig til sín um páskana – skíði í Stafdal næstu daga

Af SandhólatindiPáskarnir nálgast hratt og ég frekar en aðrir hef enga stjórn að hraða tímans.  Við Ólafur Már vinur minn og sonur hans Bjarki Már ætlum að skella okkur á skíði í Stafdal í Seyðisfirði og ég hlakka mjög til fararinnar. Í Stafdal hafa Seyðfirðingar og Héraðsmenn byggt upp glæsilegt síkiðasvæði, sem ég hef ekki skíðað á fyrr. Við ætlum að búa í fjölskylduhúsinu hans Óla á Seyðisfirði og stunda skíðin eins og við mögulega getum.
SF ALP félagar mínir fyrir austan fullyrða við mig að aðstæður í Stafdal séu eins góðar og best verður á kosið og ég sé í fréttum að þar var nýr skíðaskáli vígður við hátíðlega athöfn um helgina.

Þegar ég bjó á Seyðisfirði, sennilega sumarið 1972 eða 1973 gekk ég um þetta svæði með Eiríki nokkrum, sem oft var kenndur við Kerlingafjöll, og einhverjum útlendum spekúlöntum í leit að framtíðarskíðalandi fyrir Austurland. Ekki var nokkrum blöðum um það að fletta að þeir vöru afar hrifnir af svæðinu í Stafdal, sem að lokum varð fyrir valinu. Það verður gaman nú 35 árum síðar að skíða í fyrsta skipti á þessu svæði, sem þeir félagar mæltu svo mjög með. Það verður ekki síður gaman að koma í minn gamla heimabæ og anda að sér liðnum tíma og njóta þess að rifja upp gamlar minningar.
Myndin sem hér fyrir ofan er tekin af Sandhólatindi, norðanmegin við Seyðisfjörð. Ég á í hugskoti mínu góðar minningar frá því að við Theodór bróðir fórum í ævintýralega skíðaferð upp á tindinn, sem er rúmlega 1000 m hár. Þar fórum við drengirnir, sennilega 10 til 12 ára gamlir með nokkrum Þorbjörn Arnoddsson með sjóbílinn sinnafburða Seyðfirskum skíðamönnum ásamt Þorbirni Arnoddsyni snjóbíla- og ferðafrömuði og renndum okkur alla leið niður á Háubakka. Þetta þótti á þeim tíma mikið afrek, bæði það að Þorbjörn skildi komast langleiðina upp á tindinn á snjóbílnum sínum og eins það að við skildum allir komast heilu og höldnu niður á skíðunum. Myndina hér til hliðar fann ég á netinu en í myndatexta segir að Þorbjörn sé fremstur á myndinni. Myndin gæti verið frá svipuðum tíma og við fórum á Sandólatind eða eitthvað eldir. Sandhólatindur er snævi þakinn fyrir miðri mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

 Skiing Góða skemmtun á Seyðisfirði og gleðilega páska kallinn minn.

Ía Jóhannsdóttir, 18.3.2008 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband