Eitt ár að baki - ekkert annað en fullur bati kemur til greina - engin önnur hugsun fær tíma eða rúm í hugum okkar

P9022073Í gær 21. október var eitt ár liðið síðan Elsa greindist með heilakrabbamein. Þennan dag í fyrra var hún á randi í New York með frænku sinni og fleirum, sem voru í heimsókn hjá henni, þegar hún fékk skyndilega flogakast. Hún hafði enga reynslu af slíku áður og þetta kom henni því í opna skjöldu. Mike maðurinn hennar kom strax akandi frá Philadelphia og náði í hana þar sem hún hafði neitað að fara á sjúkrahús í New York. Á leiðinni heim ákváðu þau til öryggis að koma við á sjúkrahúsi og láta kíkja á þetta. Eftir stutta rannsókn kom í ljós æxli við heilann sem hafði valdið flogakastinu og þremur dögum síðar var hún flutt á Jefferson University-sjúkrahúsið í Philadelphia til þess að gangast undir uppskurð til að fjarlægja æxlið.
Mér brá illilega þegar hún hringdi í mig og sagði mér frá þessu og auðvitað kom strax upp í huga minn spurningin; af hverju hún? Ung móðir í blóma lífsins með þrjú börn og alla ábyrgðina sem því fylgir.
Ég flaug strax út til þess að reyna að vera henni til halds og trausts og eins til að aðstoða Mike og Birnu systur hennar, sem býr ekki langt frá. Um leið og við hittumst tókum við sameiginlega ákvörðun: Ekkert annað en fullur bati kemur til greina - engin önnur hugsun fær tíma eða rúm í hugum okkar. Elsa er og hefur alltaf verið hraust, jákvæð og dugleg og það er einmitt á þeim kostum sem við byggjum. Hún á þrjú falleg og vel gefin börn, góðan eiginmann, yndislegt heimili og góða og hjálpsama nágranna.
Nú þegar eitt ár er að baki eru horfurnar í takt við væntingar okkar. Elsa seiglast áfram á duganaði og jákvæðni og þróun krabbameinsins eru góðar. Hún er í lyfjameðferð sem tekur um eina viku í mánuði og samkvæmt nýjustu MRI, (ómspeglun) sem hún fer í annan hvern mánuð er hún að virka eins og við var búist. Flogaköstin sem hófust fyrir réttu ári eru enn að þvælast fyrir og hún er sífelt að prófa sig áfram með lyf til að halda þeim í skefjum.  Lyfin hafa ýmsar aukaverkanir sem eru óhjákvæmilegar og af þeim sökum má hún t.d. ekki aka bíl.
Að vera þriggja barna húsmóðir í úthverfi Philadelphia og geta ekki ekið bíl er töluvert vandamál eins og gefur að skilja. Sonja Liv, sem er yngst þarf að fá akstur í skólann á hverjum degi kl. 12 og svo koma Raquel og Victor heim með henni í skólabílnum kl. 15:30 og þá þarf að aðstoða við heimanámið og keyra þau í íþróttir og annað sem fylgir unga fólkinu. Matvörubúðin er í 10 mínútna fjarlægð frá heimilinu og 15 mínútur tekur að keyra í apótekið svo dæmi sé tekið. Skólinn er í eina áttina og verslanirnar í hina. Það gefur því auga leið að það er hreinlega ekki hægt að lifa hér án þess að geta ekið eða hafa einkabílstjóra og það er einmitt aðalverkefnið mitt hér þessa dagana.
Eitt ár er að baki og allt hefur þetta einhvern vegin tekist. Nú tekur næsta við og vonandi sjáum við fram á áframhaldandi barta og bjartari tíma. Ekkert annað kemur til greina í okkar huga.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Elsku Gísli minn við sendum ykkur öllum hlýjar kveðjur.  Mikið er gott að heyra að allt gengur vel.  Það er líka mikilvægt að lifa í bjartsýni.  Sendi ykkur öllum í fjölskyldunni ljós hvar sem þið eruð í heiminum. 

Ía Jóhannsdóttir, 22.10.2008 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband