Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Ánægjuleg frétt fyrir mig og mína á visir.is um Alxheimer

Þessa góðu frétt las ég í dag á visir.is. Fréttir um ný lyf eru sífelt að birtst en ég vona svo sannarlega að þessi eigi eftir að marka tímamót.

Hafa fundið lyf gegn Alzheimer sjúkdóminum

Breskir vísindamenn hafa þróað lyf sem vinnur gegn Alzheimer-sjúkdóminum

Prófanir með lyfið sem kallast Rember, lofa mjög góðu. Í frétt um málið á BBC fréttastöðinni segir að af þeim 320 Alzheimer-sjúklingum sem lyfið var prófað á reyndust rúmlega 80% þeirra ná töluverðum bata.

Prófanir með lyfið fóru fram í háskólanum í Aberdeen og segja vísindamennirnir þar að lyfið dragi úr uppbyggingu á sérstöku prótíni í heilanum. Sérfræðingar í Alzheimers-sjúkdóminum hafa fagnað þessum rannsóknum en segja að frekari prófanir þurfi að gera á lyfinu. Hinsvegar virðist sem fyrsta raunverulega lækningin á Alzheimer sé fundin.

Sá sem stjórnaði rannsókninni, prófessor Claude Wischik segir að lyfið gæti farið á almennan markað árið 2012.

Umfangsmikil rannsókn á lyfinu er áformuð á næsta ári og þá á að kanna hvort hægt sé að nota það til að koma í veg fyrir að fólk fái Alzheimer.


Það er meira en fyndið að sjá.........

.....myndina sem fylgir þessari frétt á mbl.is.  Í fyrsta lagi er þetta úr leik Grindvíkinga og KR og í Helgi Sigöðru lagi var hetja leiksins Helgi Sigurðsson að sjálfsögðu víðs fjarri á myndinni. Helgi spilaði um tíma hér í Grikklandi með Panathinaikos og ef ég man rétt þá spilaði hann sinn fyrst leik með þeim gegn Rhodos og skorði tvö mörk. Með þessari færslu fylgir að sjálfsögðu viðeigandi mynd. Áfram Valur,  þið eruð á góðri siglingu.
mbl.is Helgi með þrennu og Valur vann Grindavík 5:3
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn loga eldar á Rhodos - dagur 5

Skógareldarnir sem hér hafa geysað í 5 daga eru enn að hrella eyjaskeggja. Eldarnir eru á suðurhluta Rhodos í um 50 km fjarlægð frá okkur, sem öll erum á norðurendanum á eyjunni. Ásgeir Tómasson fréttamaður á RUV var með ágæta samantekt á stöðunni í hádegisfréttum í dag og hér er linkurinn á fréttina:  

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4371308/9


Flott mynd af Gylfa í Morgunblaðinu í dag

Gylfi Blöndal. Ljósm. Valdís ThorÍ Morgunblaðinu í dag, laugardag, er viðtal við Gylfa í tilefni af árs afmæli Organs. Með viðtalinu fylgir þessi líka fína mynd af piltinum sem ljósmyndarinn Valdís Thor hefur tekið. Ég tek mér það bessaleyfi að birta hana hér og Valdís sendir Gylfa þá bara reikninginn ef ég er að gera eitthvað sem ég má ekki.


Skógareldar á Rhodos

rhodes-mapSlökkviliðsmenn og flugvélar frá meginlandinu hafa í dag barist við skógarelda á suðurhluta Rhodos. Lýst var yfir neyðarástandi á stóru svæði þar sem að jafnaði margir ferðamenn fara um í skoðunarferðum. Þegar ég frétti síðast hafði ekki tekist að ráða niðurlögum eldsins en menn voru samt bjartsýnir á að það tækist áður en langt um líður. Hvorki við eða okkar fólk er í neinni hættu þar sem við dveljum öll á norðurhluta eyjunnar. 
Sagan á götunni segir að aldraður maður sem býr á þessu svæði hafi verið að raka saman laufi úti í skógi og fengið þá fáránlegu hugmynd að brenna laufið og áður en varði barst eldurinn í skóginn. Á kortinu hér til hliðar þar sem merkt er Profilia loga eldarnir en á skammt frá þessu svæði urðu miklir skógareldar fyrir 7 eða 8 árum síðan.

Fjölskyldan í fínum málum

 

Það er orðið allt langt síðan ég tók saman yfirlit yfir það sem mín tvístraða fjölskylda er að aðhafast um þessar mundir en þessu bloggi er einmitt ætlað að ver svona einhverskonar brú milli okkar þó svo að sá sem þetta skrifar sé nær alltaf í aðalhlutverki.
ameríka 024-1Elsa skrifaði mér fyrir nokkru: "Ég vildi bara láta vita að allt gengur vel hjá mér. Síðasta heila-skannið mitt var í gær og ég fór til læknisins í dag til að fá niðurstöðurnar. Læknirinn útskýrði að ég er enn með svolítið mikinn örvef þar sem æxlið var sem var fjarlægt í aðgerðinni í október og þá er svæðið sem æxlið var á ennþá umtalað sem æxli. Eina leiðin til að vita hvort að allt æxlið náðist er að fylgjast vel með hvort það vaxi aftur og að fylgjast með breytingum á svæðinu. Í síðasta skanni sáust engar breytingar (jibby!!!)"
Nú eru liðnir níu mánuðir síðan aðgerðin var gerð og við fyllumst bjartsýni með hverjum degi sem líður.

Birna og Michael Gísli búa í sumar hjá ömmu hans Michael og af þeim allt gott að frétta. Michael Gísli kann vel við sig hjá ömmu og vonandi er hann duglegur að æfa sig á básúnuna í sumar. Birna sækir vinnu í Bristol, sem er ekki allt of langt frá.
260836AGylfi er alltaf að organísera Organ og hefur í nógu að snúast og þann 1. ágúst eru þau að halda upp á eins árs afmæli staðarins vinsæla í miðbænum. Hann er að fara í tónleikaferð um Evrópu sem hefst 15. september í París og síðan eru borgirnar þessar; Barcelona, Madrid, Torino, Milano, Bad Bonn, Heidelberg, Hamborg, Munsters, Brussel, Leuven, Amsterdam, Gronningen,  Kaupmannahöfn, Gautaborg, Oslo, Stokkhólmur, Malmö og svo endað í Berlín þann 9. október. Sem sagt "25 gigg á 27 dögum" eins og Gylfi segir. Hljómsveitin heitir Borko og í raun einn maður með band á bak við sig.  Hann gefur út á Morr Music í Þýskalandi sem er gömul og virt útgáfa í þessum geira, og í raun heimsfræg sem slík.
ChloéChloé er alltaf í Newcastle og er í fríi frá skólanum í sumar og undirbýr sig fyrir átök vetrarins og er einnig að vinna á veitingastað. Hún er nýlega búin að fá niðurstöður úr vorprófum og verkefnum vetrarins og komst í gegn um þetta allt með glans. Til hamingju Chloé mín við samgleðjumst þér öll og erum stolt af þér. Hún er að skoða möguleika á að kíkja í heimsókn til mín um miðjan ágúst.  Erla er alltaf heima á Fróni og amma María er alltaf jafn jákvæð og hress. Þær eru að plana heimsókn til Chloé en ekki afráðið hvenær það verður.

Bréf frá Ásdísi systur:
Mín ágæta systir Ásdís, sem útskrifaðist sem djákni í vor sendi mér fréttir að heiman fyrir ekki alllöngu. Ég vona að Ásdís fyrirgefi mér að ég set skrifin hennar hérna beint inn

Ásdís"Það fjölgar í fjölskyldunni í gríð og erg, veit ekki hvort einhver hefur haft rænu á að segja þér fréttirnar. Daníel og Sólrún eignuðust dóttur 23.júní sem nefnd var "Sara Dís"og Dóra og Grétar eignuðust dreng 30.júní sem er ennþá ónefndur.
Annars er allt mjög gott að frétta hjá okkur og stórfjölskyldunni. Var í grillpartýi í gærkvöldi hjá Tóta og Millu en Tóti átti afmæli. Theodór og allt hans slekt (nema auðvitað Dóra og co) er búinn að vera í bústaðnum fyrir austan hjá pabba í einar þrjár vikur, næst fer Maddý í tvær vikur og svo rekum við Tony lestina ásamt Daníel og co um verslunarmannahelgina í nokkra daga. Svo er fólk búið að vera út og suður eins og gengur, Milla gengur á nokkur fjöll í viku, hleypur Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur og svoleiðis. Maddý og Óli voru að fá sér hund og Óli situr heima í fríi og les  um sálarfræði hunda og Maddý kvartar yfir því að hann las aldrei sálarfræði barna.

4c949f27415ca36cPabbi er búinn að koma sér upp netsambandi í bústaðnum og er með tölvuna og fylgist grannt með öllu sem gerist, barnsfæðingum og svoleiðis og örugglega netsíðunni þinni.Hann verður í bústaðnum í mest allt sumar. Portúgalsferðin hans var víst mjög fín.
Við Tony erum mest heimvið í sumar, því hann er nýbúinn að skipta um vinnu og á ekki sumarfrí.  Hann starfar nú fyrir ensku ferðaskrifstofuna Artic Experience og vinnur í London eina viku í mánuði en annars heima og er alsæll. Skipuleggur íslandsferðir fyrir Bretana.

Ég kláraði djáknanám frá HÍ í vor, og er mjög ánægð með það, er nú í starfsþjálfun, var m.a. viku á Löngumýri í Skagafirði í sumarbúðum aldraðra í prýðisveðri. Emelía er á dansnámskeiði í New York, hún stefnir á framhaldsnám í dansi og coreography. Pétur er í Listnámi í San Francisco en er nú í sumarfríi heima og Davíð er enn í menntaskóla á listabraut, og stefnir á nám í ljósmyndun. Daníel starfar hjá símafyrirtækinu Nova, er þar verkefnisstjóri og mjög ánægður.

Ég fylgist með þér og þínum í fjarlægð, gaman að þú skulir halda úti netsíðu, þannig að þú ert ekki alveg týndur og tröllumgefinn. Gott að heyra hvað gengur vel hjá krökkunum þínum og sérstaklega Elsu."
 
Til hamingju Ásdís og þúsund þakkir fyrir skrifin. Ekki meira í bili enda kominn á þriðju blaðsíðu.


Orquestra Buena Vista Social Club spiluðu eins og englar á Rhodos.

 

Það var þétt setinn bekkurinn í Melina Merkouris Medival Moat Theater í gærkvöldi þar sem Kúbanarnir hreinlega fóru á kostum. Þvílík tónlist, þvílíkir snillingar, þvílík innlifun, þvílík hjartahlýja. Án nokkurs efa í mínum huga þá voru þetta 5 stjörnu tónleikar þar sem 13 snillingar fóru á kostum. Hvergi veikur blettur en samt held ég að stjarna kvöldsins hafi verið hinn aldni bassaleikari Cachaío Lópes. Allt sem þessi maður gerði var tær snilld. Oft var erfitt að greina hvað var maður og hvað hljóðfærið þetta hreinlega rann saman í eitt. Brasið og trommararnir ásamt Lopes voru grunnurinn og allt sem þar kom ofan á að meðtöldum söngvurunum var gert eins og einmitt svona ætti að gera þetta og án allrar fyrirhafnar.
Þegar Kúbanarnir höfðu lokið við að spila nokkur lög var kviknað í áhorfendum og margir þeirra fóru úr sætum sínum og tóku að dansa og syngja fyrir framan sviðið og stemmingin gat ekki verið betri. Þessir tónleikar voru undir berum himni með gömlu borgarmúra Rhodosborgar sem bakgrunn. Það verður spennandi að heyra hvernig stuðið verður í Vodafonehöllinni á morgun og bara í Guðs bænum ekki missa af Orqestra Buena Vista Social Club.


Við verðum á undan ykkur að njóta Buena Vista Social Club

 

Buena Vista Social ClubFórum í gær og náðum okkur í miða á Buena Vista Socila Club en þau verða með tónleika hér á Rhodos þann 22. júlí, tveimur dögum á undan ykkur heima.  Tónleikarnir verða í Melina Merkouri Medieval Moat Theater, sem er afar skemmtilegur tónleikastaður og leikhús inni í gömlu borginni.  Við erum full tilhlökkunar og erum nokkuð viss um að á þessum stað náist upp frábær sveifla. Ef við náum sambandi við tónlistarfólkið sendum við það með hita sveiflunnar og Aegean-hafsins heim.

Þess má til gamans geta að gríska poppstjarnan Yiannis Parios verður líka með tónleika hér þann 19. júlí á Diagoras Municipal Stadium of Rhodes, sem er Laugardalsvöllurinn þeirra hér á Rhodos.  Yiannis er "Páll Óskar" Grikklands þó svo að mér finnist Páll Óskar mikið betri tónlistarmaður. Ég fór á tónleika með Yiannis í fyrrasumar og varð satt að segja fyrir miklum vonbrigðum en það sama átti ekki við um börnin og unglingana hér. Þau trylltust af fögnuði við hvern tón og hverja hreyfingu goðsins.


Vægur eftirskjálfti á Rhodos í nótt

 

Íbúðin er uppi og svefnherbergið í kvistinum efstÍ gær var töluverð umræða meðal íslendinganna hér hvort búast mætti við eftirskjálfta eftir stóra skjálftann í gærmorgun og ég heyrði í einum farþega sem var nokkuð uggandi. Popi ágæt vinkona okkar hér sagði okkur að fyrst aðalskjálftinn hafi verið þetta stór, 6,3 og staðið þetta lengi væru mun minni líkur á stórum eftirskjálfta. Og það reyndist mikið til í því.
Ég var á neyðarsímavaktinni í nótt og síminn vakti mig um kl. 2:45, sem betur fer ekki mjög alvarlegt mál. Eftir að símtalinu lauk fór ég að pæla í því hvort þetta væri hugsanlega fyrirboði, nú mætti búast við eftirskjálftanum á hverri stundu. Það reyndist rökrétt hugsun. Rétt fyrir klukkan þrjú tók sófinn minn örlitla samba-sveiflu. Þetta var greinilega eftirskjálftinn sem allir höfðu verið að tala um og var sem betur fer bara smá skjálfti og sennilega aðeins þeir fundið sem lágu kyrrir í rúminu sínu eða sófanum eins og ég.  Nú er þetta sennilega búið og vonandi verða a.m.k. fyrir 20 ár í næsta skjálfta hér.
Ég fékk hressilegt símtal frá farþega í morgun, sem er af suðurlandi og honum og hans fólki ber saman um að upplifa stóra skjálftann hér hefði verið afar líkt og skjálftann heima í vor nema þessi hafi staðið lengur. Hann hafði líka fundið fyrir smáskjálftanum í nótt.


Ekki stóísk ró í bloggheimum

 Í morgun setti ég smá skrif á síðuna mína um jarðskjálftann sem reið yfir hér á Rhodos í morgun.  Þetta olli því að fjölmiðlar heima á Íslandi hafa verið í sambandi við mig til að leita frétta af ástandinu hér og þá ekki síst af íslendingum, sem hér dvelja um þessar mundir.  Þegar frétt birtist á vef Morgunblaðsins mbl.is hafa "bloggarar" möguleika á að "blogga um fréttina". Þó svo að ég sé búinn að blogga í allmarga mánuði hef ég ekki fyrr en nú gert mér grein fyrir hverskonar heimur þessi svokallaði bloggheimur er. Til þess að gefa ykkur sýnishorn þá læt ég fréttina frá í morgun fylgja hér og svo "tilskrif" bloggara þar á eftir. Dæmi svo hver fyrir sig.

„Tóku þessu með stóískri ró"

„Ég held það sé óhætt að fullyrða að Íslendingarnir tóku þessu með stóískri ró," segir Gísli Blöndal, fararstjóri Heimsferða, en um 200 Íslendingar eru staddir á grísku eyjunni Rhodos þar sem jarðskjálfti, sem mældist 6,3 á Ricther, reið yfir í morgun klukkan 6:26 á staðartíma. 

„Þetta var ansi hressilegur kippur, og hann stóð yfir frekar lengi, ég heimsótti stærstu hótelin okkar skömmu eftir skjálftann og þá sat fólk pollrólegt úti í garði," segir Gísli og bætir við að fólk hafi ekki farið strax inn á hótel þar sem umræða hafi verið um hugsanlegan eftirskjálfta.  Gísli segir óhætt að fullyrða að allir hafi fundið fyrir skjálftanum en hann segist ekki hafa heyrt í neinum sem hafi orðið fyrir einhverjum skakkaföllum. 

Gísli segir að töluvert fát hafi verið á íbúum eyjunnar skömmu eftir skjálftann og að fólki hafi þust út úr húsum og hundar æst sig, en það hafi fljótlega róast.

Að sögn Gísla eru jarðskjálftar algengir á Grikklandi en þar verða samanlagt fleiri jarðskjálftar en í allri Evrópu.  Ein kona lést í skjálftanum í morgun þegar hún datt niður stiga í þorpinu Archangelos. 

Jac G. Norðquist búsettur í Danmörku skrifar:
"Æsingur........
Ég væri sennilega ennþá að hlaupa um í hringi með grenjuslefuna lekandi úr munnvikjunum, hás af öskrum og með hræðsluglampa í trylltum augunum ! Ef það er eitthvað sem að hræðir mig meira en saltfiskur með kartöflumús og tómatsósu, þá er það sólarstrandar jarðskjálfti. Stóísk ró yrði það síðasta sem kæmi upp í huga minn ef sandströndin færi að skálfa undir sólbrenndum rassinum á mér.... ekki séns í helvíti að ég yrði einn af þessum "rólegu" í svona skelfingarástandi."

Jóhannes Ragnarsson búsettur í Ólafsvík skrifar:
"Áköllum heilagan Ragnar skjálfta
Ég hefi nú aldrei vitað annað eins helvítis kjaftæði. Hvað er það sem þessi hr. G. Blöndall kallar ,,stóíska ró?" Mínar góðu og trúverðugu heimildir segja, að Íslendingarnir sem lentu í jarðskjálftanum á Ródos í morgun, hafi hlaupið um, fram og til baka, eins og hjartveikir apakettir þegar fór að skjálfa undir þeim. Og allmargir þeirra hafi verið komnir með blautan botninn þegar hrynunni lauk. Þó var kyndugast, segja mínar heimildir, að þegar neyðin var stærst og ringulreiðin mest, þá hafi Íslendingarnir gleymt Guði algjörlega, en þess í stað ákallað Ragnar jarðskjálftafræðing Stefánsson sér til hjálpar. Meira að segja harðsvíruðust Sjálfstæðismenn hafi í angist sinni veinað hvað eftir annað upp nafn heilags Ragnars skjálfta og beðið hann, í fullkomri trúarvissu, að stöðva jarðhræringarnar á Ródos tafarlaust og strax. 
Auðvitað bænheyrði Ragnar, sá góði maður og sósíalisti, fólkið og stöðvaði jarðskjálftann."

Einar Oddur Ólafsson skrifar:
"Íslenskar hetjur
Meðan það kemur mikið fát á íbúa Rhodos taka Íslenskar hetjur þessu með stóískri ró ó já.Ekki verið að æsa sig þú að jörðin skjálfi undir fótum þeirra og íbúar Rhodos skelfast.Nei við erum víkingaþjóð ekkert hræðir okkur.Gott að ég var ekki á Rhodos þá væri þessi frétt öðruvísi,líklega talað um lafhræddan Íslending sem hafi hlaupið út og neitaði alfarið að gista áfram í þessum hristara og þráði ekkert annað en að komst í burtu.Ég hef ekki enn lagt í að fara til Selfoss og Hveragerðis af ótta um jarðskjáfta.Líklega er ég ekki víkingur."

Hólmdís Hjartardóttir skrifar:
"Sjálfskipuð skjálftavakt
Smáskjálftarina er núna í Vatnajökli. Stærstu skjálftarnir mældust 3.5 og 3.1 á Richter. Ætli við tökum því ekki bara með stóískri ró eins og ferðalangarnir á Rhodos. En mikið vildi ég að veðrið á Rhodos væri komið í garðinn minn....en það er að þorna á,   kannski verður hægt að fara á skriðsóleyjarveiðar seinni partinn."

Prófessor Mambó skrifar:
"Vel mælt hjá Gísla
Það á sérlega vel við að kalla rólyndisleg viðbrögð landa okkar "stóísk" eins og Gísli gerir hér.
Stóuspekin er upprunnin á þessum slóðum og byggir á æðruleysi, sjálfsaga, sjálfssátt og sálarró.
Því hittir Gísli naglann nákvæmlega á höfuðið þegar hann lýsir viðbrögðum skjólstæðinga sinna.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband