Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Fuerteventura, ein af Kanaríeyjunum

sampaf61fea8e35d41b6Ég er búinn að vara hér síðan þriðjudaginn 27. mars og ætla heim aftur næsta þriðjudag, 10. apríl.  Þetta er sem sagt tveggja vikna vinna með góðum stúlkum Þóru Björk, Hildi Ýr og Freyju.  Hér er allt hótelpláss troðfullt um páskana og fjöldi íslendinga bæi hér í norðri, þar sem ég er staðsettur og eins í Jandia á suðuroddanum og nokkrir í  Caleda de Fuste þar sem við erum með glæsilegt Sheraton hótel.  Allt hefur gengið vel, engin óhöpp eða slys sem betur fer og nú þegar páskahátíðin er gengið í garð virðast allir una vel við sitt.  Það hefur verið mikil aðsókn í skoðunarferðirnar okkar um 30 manns fóru í síðustu viku með okkur til Lanzarote, 60 manns sigldu með mér á Catamarnan báti á laugardaginn og yfir 150 fóru með mér í dýragarðinn á mánudeginum.  Dýragarðurinn hér heitir Oasis Park og er einn sá merkilegasti í allri Evrópu.  Hápunktur ferðarinn er eflaust Camel Safarí eða úlfaldareið sem allir taka þátt í bæði ungir og gamlir - alveg einstök upplifun.

Höfðabrekka í Mýrdal.

Það var ekki langur svefninn sem ég fékk aðfaranótt laugardagsins 24. mars. Kominn heim í Ártúnsholtið frá Rhodos um kl. 01:30, sofið frá 2 til 4:30 og lagt af stað til fundar við ráðherra, þingmenn og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Höfðabrekku, rétt við Vík í Mýrdal, um kl. 6.  Þar átti ég að flytja fyrirlestur kl. 9 um morguninn og vera síðan með námskeið fram eftir degi.  Ferðin austur gekk vel þrátt fyrir leiðinda veður, snjó og skafrenning á Hellisheiðinni og grenjandi rigningu af og til á suðurlandinu.  Það var því gott að koma í eldhúsið hjá húsfreyjunni á Höfðabrekku um kl 8 og fá nýuppáhelt kaffi.  Þrátt fyrir ferðalúgan var ég í fínu stuði og varð ekki var við annað en fyrirlestrinum væri mjög vel tekið enda hafði ég undirbúið hann vel.  Ansi var ég nú samt framlágur þegar ég keyrði aftur til Reykjavíkur síðdegis á laugardag og hvíldinni fegin á sunnudeginum því framundan var námskeið á mánudag með Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og síðan flug til Fuerteventuar á þriðjudagmorgni.

Rhodos, eyja sólarinnar

Ferðalög hafa að mestu einkennt lífið að undanförnu.  Mánudaginn 19. mars hélt ég ásamt tveimur starfsmönnum Heimsferða til Rhodos í stutta skoðunaferð og undirbúning fyrir sumarið. Við flugum um kvöldið til Barcelona og vorum lent þar skömmu fyrir miðnætti.  Héldum í hasti inn til borgarinnar og komum okkur inn á hótel því við ætluðum að halda áfram áleiðis til Rhodos um kl. 3 um nóttina. Það var því ekki sofið lengi. Frá Barcelona flugum við til Rómar en þar varð smá seinkun vegna þess að ein flugbrautin í Róm var lokuð vegna veðurs. 

Við vorum því orðin dálítið stressuð að missa af fluginu frá Róma til Aþenu en það reyndust óþarfa áhyggjur því þegar til Rómar var komið var líka seinkun á fluginu þaðan til Rómar, líka vegna veðurs í Aþenu og eftir að út í vél var komið varð meiri seinkun vegna "teknikal problem", sem um síðir reyndist okkur til happs.  Þegar við loksins lentum á flugvellinum í Aþenu, búin að missa af fluginu okkar til Rhodos kom í ljós að öllu flugi þangað síðdegis og um kvöldið hafið verið aflýst vegna veðurs. 

Þar sem við lentum í þessari seinkun vegna tæknimálanna þurfti flugfélagið að útvega okkur gistinu og kvöldverð, sem þeir gerðu á ágætu hóteli á flugvellinum í Aþenu.  Við vorum því ekki orðin neitt smá ferðalúgin þegar við loksins settumst að kvölverði um kl. 10 um kvöldið enda mjög langur dagur og margar biðraðir að baki. Miðvikudaginn 21. mars um kl. 8 um morguninn vorum við loks komin heim á hótel á Rhodos og gátum bætt við smá lúr því skoðun um eyjuna átti að byrja kl. 10.

Í grískri goðafræði segir fá því að Seifur hafi deilt út heiminum, en gleymdi sólguðinum Heliosi. Helios fékk því Rhodos sem sættargjöf og varð síðar ástfanginn af gyðjunni Roda sem nafn eyjunnar er dregið af. Hún var dóttir Poseidons.  Saman eignuðust þau þrjá syni, Lindos, Kámeiros og Ialyssos, og eru þrír bæir á eyjunni nefndar eftir þeim.   Hótelið okkar var einmitt í bænum Ialyssos sem einn af stærri sólstrandar bæjunum á Rhodos í um 10 km. fjarlægð frá Rhodosborg.  Á eyjunni búa um 90.000 manns en ferðamenn sem þangað komu á síðasta ári voru um 1.250.000

Af því sem við sáum í þessari stuttu heimsókn þá er Rhodos gríðarlega spennandi sólarstaður. Þarna er líka sagan á hverju götuhorni og raunar á hverjum lófastórum bletti og í hverjum steini.  Af því sem við sáum fannst okkur gamli hluti Rhodosborgar áhugaverðust. Þarna hefst sagan nokkur þúsund árum fyrir Krist og þarna var í fornöld mikil miðstöð viðskipta enda eyjan á mörkum þriggja heimsálfa; Asíu, Afríku og Evrópu.  Veggirnir sem umlykja gamla borgarhlutann eru sumstaðar allt að 12 metra þykkir.  Á fimmtudagskvöldið vorum við boðin í mat á einum fínasta veitingastað eyjunnar Alexis, sem opnaði 1957 og er í eigu Konstantinos A. Katsimprakis. Fulltrúar fjölskyldunnar voru að sjálfsögðu á staðnum og buðu vel bæi í mat og drykk.  Konstantinos syndi mér allan staðinn og var ekki síst stoltur af myndum og blaðaúrklippum af fjölskyldu sinni með Onasis og einnig með Jaquline Onasis (Kennedy) en Onasis var tíður gestur á þessum veitingastað þegar hann átti leið um eyjahafið.

Á Rhodos dvöldum við fram á föstudagsmorgun og flugum þaðan aftur til Aþenu, áfram til Berlínar og þaðan loksins til Íslands.  Sama sagan var þá uppi á teningnum - byrjaði með smá frestun á Rhodos, aftur í Aþenu og svo bjargaði seinkun hjá Iceland Express því að við komumst heim um miðnætti á föstudagkvöld. Eftirminnileg en erfið ferð að baki og mikill spenningur fyrir því að komast þangað aftur um miðjan maí. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband