Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Frábært val

Gott hjá Ólafi að leita til Péturs.  Pétur er drengur góður og hefur staðið sig afar vel sem þjalfari og hann kann sitt fag. Óska okkur öllum til hamingju í þeirri von að Pétur taki starfið að sér.
mbl.is Pétur verður aðstoðarmaður Ólafs landsliðsþjálfara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag hafa börnin forgang

Þegar börnin höfðu lokið heimanáminu í gær fórum við út til að koma fyrir öllu Halloween skrautinu. Þetta var töluverð vinna því þau vildu nota allt tiltækt skraut sem til var og geymt er niðri í kjallara.  Graskerin voru tilbúin inni í bílskúr og nú var  þeim var líka komið fyrir utandyra.  Michael, Victor og Raquel taka búningana með sér í skólann en þar verður heilmikil skrúðganga síðar í dag.  Sonja fer líka með sinn búning því það er leikskóladagur hjá henni í dag.  Samkvæmt könnun sem ég sá á netinu er vinsælasti búningurinn í ár prinsessubúningur en hjá strákunum er það Spider-Man.  Michael verður Bobo Fett (úr Star Wars), Victor verður Zombie (draugur), Raquel verður Mime (látbragðsleikari) og Sonja verður Eagles-klappstýra.

Á leið í skólann á HalloweenEftir að þau koma heim úr skólanum í dag og hafa klárað heimanámið fara þau aftur í búningana og þá förum við að undirbúa að "tric-or-treat" en þá er farið hús úr húsi og snapað sælgæti.  Samkvæmt könnunni sem ég vitnaði í áðan er reiknað með að 93% barna í Ameríku taki þátt í þessum leik og ekki nóg með það heldur taka hundarnir þátt líka. Könnunin segir að vinsælasti hundabúningurinn í ár sé "Devil"  Hundurinn á þessu heimili mun ekki taka þátt að þessu sinni en fékk í staðinn að fara á snyrtistofu í gær og er harla ánægður með sinn hlut.

Elsa fer síðdegis á morgun að hitta Dr. Andrew´s, lækninn sem framkvæmdi aðgerðina og þá ætti hún líka að fá endanlegar niðurstöður um framhaldið. Annars allt gott hjá henni.

Til gamans læt ég könnunina sem ég hef vitnað í að fylgja hér með: 

"Nearly 60 percent of consumers plan to celebrate Halloween in some way, and 11% will include their pets in the fun, as 7.4 million households will dress their pet up for Halloween.
The most popular costume for Fido or Fluffy? Devil ranks No. 1 with 12%, followed by pumpkin (9.2%), witch (4.5%), princess (3.8%) and angel (3.3%).
This year's most popular children's costumes are princess (10.7%) and Spider-Man (4.8%), while adults will likely be donning a witch (16.9%) or pirate costume (3.8%).
According to the National Confectioner's Association (NCA), 93% of children will be trick-or-treating tonight, and there's a pretty good chance some candy corn will end up in their bags - more than 35 million pounds of candy corn will be produced in 2007, which is enough to circle the moon nearly 4 times"


Nú styttist í Halloween

Elsa a leid heimHéðan eru bara góðar fréttir. Hægur bati en bati engu að síður. Elsa er á mjög sterkum lyfjum, sem gera hana mjög slappa og henni finnst heilinn stundum ekki finna það sem hann á að finna en við erum sannfærð um að það sé lyfjunum að kenna (eða þakka). Að öðru leiti gengur lífið sinn vana gang, börnin í skólanum og hundurinn í snyrtingu í dag.

Nú erum við kominn í fullan gang með að undirbúa Halloween, sem er á morgun (miðvikudag). Í gær vorum við að skera út grasker og í kvöld ætlum við að klára verkið. Börnin eru búin að fá búningana sína og reiknað er með að afi labbi með þeim í hús til að sníkja sælgætið.

Halloween-afiMyndirnar sem hér fylgja með eru af Elsu um það leiti sem hún var að fara af spítalanum í Philadelphia og hina af afa með Halloween-grímuna sína. Ég er ekki frá því að hann líti betur út en venjulega.  Góðar kveðjur til allra frá okkur öllum


Enn betri fréttir frá Ameríku - Elsa komin heim

Þetta er ótrúlegt. Um kl. 12 í dag hringdi Elsa og bað okkur að koma og sækja sig á spítalann, hún mætti fara heim ! Þá voru aðeins liðnir 44 klukkustundir frá því að aðgerðin var gerð.  Það er hreint ótrúlegt að jafn mikil og flókin aðgerð skuli ekki taka meiri tíma og taki meiri ekki meiri toll af Ameríkudeildinsjúklingnum en raun ber vitni.  Elsa var líka heppin. Sjúkrahúsið í Philadelphia, sem heitir Jefferson Hospital for Neurosciens og er hluti af Thomas Jefferson University Hospital, er eitt hið besta í heimi og læknirinn hennar, Dr. David Andrews er talinn vera ein albesti heilaskurðlæknir í heimi.  Hvorki meira né minna. Betra getur þetta ekki verið.

Þegar þetta er skrifað erum við öll komin heim á Stauffer Road og allir himin sælir. Elsa er auðvitað þreytt og á að hafa hægt um sig næstu vikuna en síðan tekur við daglegt líf með uppeldi fjögurra barna og öllu sem tilheyrir. Birna ætlar að vera hjá henni næstu vikur og það verður örugglega mikil hjálp í því.


Góðar fréttir frá Ameríku

 

Við Mike vorum á spítalanum hjá Elsu í allan gærdag (laugardag). Hún liggur á gjörgæsludeild og heimsóknartímarnir eftir ákveðnu kerfi. Við fengum að vera hjá henni í hálftíma í senn, frá kl. 12 til 12:30 og svo aftur kl. 14 til 14:30 o.s.frv. Henni leið eftir atvikum en var mjög þreytt þar sem hún hafði ekkert sofið um nóttina, hafði stöðugan höfuðverk og eins fannst henni rúmið ekki mjög þægilegt.  Hún er á tveggja manna stofu og með ótal tengingar við ótal tæki og tól og tölvur.  Síðdegis var konan við hliðina á henni flutt í burtu og þá fékk hún að skipta um rúm, fékk 2007 módelið og leið mikið betur á eftir.  Við Mike fórum heim um kl. sjö og öll vorum við harla ánægð með batann því nú voru aðeins 24 stundir liðnar frá því að aðgerðinni lauk.

Elsa skökku fyrir aðgerðÉg var vaknaður snemma í morgun og Elsa hringdi um kl. átta.  Hún sagðist hafa náð að sofa dálítið í nótt og var hljóðið í henni töluvert betra en þegar við Mike fórum af spítalanum í gærkvöldi.  Höfuðverkurinn hefur minnkað og eins hefur dofinn í tungunni einnig minnkað en hún sagðist finna meira fyrir bólgum í andliti og í kring um skurðinn.  Þetta er sagt mjög eðlilegt og bólgurnar ættu síðan að fara að minnka eftir að liðnar eru 48 stundir frá aðgerðinni.  Hún á von á að hitta lækninn sem framkvæmdi aðgerðina síðar í dag og þá fær hún vonandi nákvæmari upplýsingar um framvindu næstu daga.  Sjálfur reikna ég ekki með henni heim fyrr en á mánudag eða þriðjudag en auðvitað ráðum við engu um þetta.  Birna og Mike eru að búa sig í að fara til Philadelphia og ver hjá henni í dag.  Sjálfur ætla ég að vera með krökkunum og við ætlum að reyna að eiga góðan dag saman.

Álagið á símunum okkar allra var mikið í gær (sem betur fer).  Ótrúlegur fjöldi fólks hefur verið að fylgjast með og senda góða strauma og óskir og fyrir það erum við öll ákaflega þakklát.  Elsa biður mig að skila kveðjum og þakklæti til fjölskyldu sinnar og vina okkar á Íslandi sérstaklega til afa og systra minna fyrir góðar bænir og heita strauma.  Við erum sannfærð um að nú sé þetta verkefni sem á hana var lagt að baki og bjartir tímar framundan. Alla síðustu viku er búið að rigna mikið en í dag er ekki skýhnoðri á himni og dagurinn eins fallegur og hann frekast getur orðið.


Súrir og sætir tímar í Ameríku

Það var lítið gaman að koma til Ameríku s.l. þriðjudag.  Elsa dóttir mín hafði verið lögð inn á sjúkrahús í Philadelphia þar sem fjarlægja átti nýuppgötvað heilaæxli.  Hún hafði verið í stuttri heimsókn í New York með Millu systur minni, dóttir hennar og vinkonum og þær staddar inni á veitingastað þegar hún fær skyndilega flogakast. Kallað var á sjúkrabíl en þegar hann var kominn á staðinn var bráð af henni og hún ákvað að fara ekki með honum heldur hringja í Mike manninn sinn og láta hann sækja sig til New York.

ElsaÞegar þau komu heim til Pottstawn ákváðu þau að koma við á sjúkrahúsinu þar og láta skoða málið því aldrei áður hafði hún fengið slíkt kast.  Elsa hringdi í mig eld snemma á mánudagsmorgninum og sagði mér á við rannsókn á sjúkrahúsinu hefði greinst æxli við heilann, töluverðar bólgur og eins hefði eitthvað blætt.  Fljótlega var ákveðið á flytja hana á stærra og betra sjúkrahús í Philadelphia þar sem gera þyrfti aðgerð til að fjarlægja æxlið.  Ég flaug til Baltimor á þriðjudaginn og var kominn á spítalann til hennar um kl. 10 um kvöldið. 

Á miðvikudeginum var loks ákveðið að aðgerðin yrði gerð á föstudegi og ætti að byrja kl. 10 um morguninn.  Ég var hjá henni allan fimmtudaginn því Mike maðurinn hennar var sendur heim til að reyna að sofa eitthvað en hann hafði þá nánast ekkert sofið frá því aðfararnótt sunnudags.  Við vorum öll mætt eldsnemma á sjúkrahúsið, ég, Birna dóttir mín og tengdaforeldrar Elsu, sem komið höfðu frá Buffalo til þess að aðstoða með börnin fjögur.  Það dróst síðan til kl. þrjú um daginn að aðgerðin hæfist og sú bið var okkur öllum mjög erfið. Biðin eftir að fá fréttir af skurðstofunni tók einnig mikið á og var einn súrasti tími í lífi mínu.  Um klukkan fimm fáum við loks fréttir: "It all went well". Við Mike fengum að vera hjá henni þegar hún vaknaði og það var í senn bæði súr og sætur tími.  Henni leið mjög illa og kvartaði undan miklum verkjum í höfðinu.  Læknarnir upplýstu okkur betur um aðgerðina og talið er fullvíst að aðgerðin hafi heppnast eins vel og bestu óskir okkar höfðu staðið til.  Við vorum síðan öll rekin heim um kl. tíu um kvöldið og fáum ekki að sjá hana aftur fyrr en kl. tólf á hádegi í dag, laugardag. 


Gylfi og Alex á alheimsmælikvarða

kimono1Nú stendur yfir 9. Airwaveshátíðin og þessi umsögn byrtist í 24 stundum í morgun: 

".....Kimono var næst á svið. Ég hef alltaf kunnað að meta Kimono og frammistaða hljómsveitarinnar á fimmtudaginn skrúfaði ekki niður í því. Nýja efnið hljómar mjög vel, drunginn og dauðinn er til staðar og samspil gítarleikaranna tveggja, Gylfa og Alex, er á alheimsmælikvarða." Til hamingju Gylfi og félagar, þið eruð enn einu sinni að sýna fram að þið eruð að gera frábæra hluti í tónlisinni.

 

 

2007815192750_240


Gylfi ætlar að verað fyrsti og síðasti trúlausi páfinn

Þetta frábæra viðtal er við Gylfa á blaðsíðu 38 í Fréttablaðinu í dag.

Gylfi 2

GylfiTónleikastaðurinn Organ hefur slegið rækilega í gegn enda mikil þörf fyrir slíkan stað í hjarta borgarinnar. Staðarhaldari, Gylfi Blöndal, sem jafnframt er gítarleikari í rokksveitinni Kimono, er nú í óða önn að undirbúa stífa Iceland Airwaves-dagskrá í næstu viku. Gylfi var tekinn í yfirheyrslu helgarinnar.

Hver er fyrsta minningin þín? Hún er úr bæjarlæknum sem rann við hús okkar á Seyðisfirði. Ég hlýt að hafa verið 3-4 ára og var þar að leik niður með læk þegar minkur birtist mér. Pabbi mætti fljúgandi "át off nóver" galvaskur og lagði til atlögu við minkinn, mér til mikillar skelfingar. Miklu seinna eignaðist ég tvö kvikindi, afbrigði af minkum, sem gæludýr, þannig að þessi reynsla kenndi mér ekki að hræðast minka sérstaklega. Ég á líka ljóslifandi minningu frá æskuárunum á Seyðisfirði þegar hljómsveitin The Mamas & The Papas gistu heima hjá okkur í nokkra daga og brölluðum ég og Mama Cass margt saman. Það var ekki fyrr en ég var kominn á þrítugsaldur sem ég komst að því að þetta hafði verið ímyndun í öll þessi ár og The Mamas & The Papas hafði ég aldrei hitt.

Ef það væri gerð kvikmynd um ævi þína, hver ætti að leika þig? Mickey Rourke.

Ef þú gætir valið þrjár hljómsveitir, lifandi eða dauðar, til að spila á Organ, hverjar myndir þú velja? Þeyr, Fugazi og Fleetwood Mac.

Ef þú værir ekki að vinna, hvernig myndir þú eyða deginum? Ég veit það ekki. Bara veit það ekki.

Hver er versta vinna sem þú hefur nokkurn tíma unnið við? Ég vann eitt sinn til styttri tíma í bílaþvottastöð, svona færibandsstöð, þar sem ég þurrkaði bíla inni í því sem verður best lýst sem risavöxnum hárblásara, sirka 60 bíla á klukkustund. Ég hef aldrei upplifað annan eins varaþurrk. Annars vann ég líka í nokkra daga sem krakki í Miklagarði við að blása upp blöðrur fyrir einhverja tilboðsviku og eftir þrjá tíma af blæstri var ég orðinn blár í framan og lá við yfirliði. Það var fyrst þá sem mér var bent á helíumkút sem mér hafði verið fenginn í verkið.

Fylltu í eyðuna: Það er eitthvað gruggugt við  þennan gamla góða Villa. Hver hefur ekki séð vhs-myndina Good Old Willy Hunting?

Hefurðu einhvern tíma birst á skjánum? Já, í viðtali á PoppTíví með grímu fyrir andlitinu, sem Ragnar Hansson hafði gert fyrir vídeó fyrir Kimono, og hárkollu á hausnum. Ég og Alex vinur minn hræddum líftóruna úr starfsfólki stöðvarinnar enda mættum við í smink með grímurnar og neituðum að taka þær niður. Stöðin var að brjóta odd af oflæti sínu með því að bjóða einhverjum skrítnum prog-rokkurum í viðtal en við létum öllum illum látum. Ég get svarið það að liðið var skíthrætt.

Hvað veldur þér mestum áhyggjum? Gegndarlaust dráp á saklausu fólki um allan heim. Ég naga á mér neglurnar á fréttatímanum og velti fyrir mér hvenær röðin komi að mér.

Hvað, að þínu mati, er kynþokkafyllsti klæðnaður sem kona getur klæðst? Sumarkjóll úr bómull. Grrrr

Gerir fólk grín að þér fyrir eitthvað sérstakt?

Það er helst gert grín að mér fyrir frekar gloppótt minni. Ég á það til að segja sömu manneskjunni einhverja sögu tvisvar eða gleyma því á fimm mínútum að ég hafi sagt eitthvað og segi það því aftur. Svo hefur verið gert grín að mér fyrir að stíga léttan dans þegar Kimono spilar á tónleikum, og hef ég því lagt niður þá iðju.

Hvort er betra að gefa eða þiggja? Ég myndi segja að mér finnst bara bæði betra. Ég fíla samt alveg fínt að þiggja.

Hvaða frasa ofnotar þú? "Einmitt, fattarðu? og þokkalega. "Shot of Bruchatti" og "All CAPS!" koma líka sterkir inn."

Ef þú værir að fara á grímuball, í hvað myndir þú fara? Í sundskýlu páfans.

Hvaða núlifandi manneskju hatar þú og hvers vegna? Ég trúi ekki á hatur og vil meina að manneskja sem hatar sé yfirleitt verri en sú sem hún hatar. En Dick Cheney og George W. Bush skora hátt á óvildarlistanum. Björn Ingi framsóknarmaður fer líka óstjórnlega í taugarnar á mér. Sér hann enginn leggja drullu-ólöglega uppi á gangstétt þegar hann er að mæta á fund í Framsóknarhúsinu í fréttatímanum? Come on!

Ef þú gætir stýrt framtíð þinni, hvað sæir þú fyrir þér í þremur setningum?

Gylfi Páfi fyrstiEftir að ég hef lokið mér af við að gera Organ að lifandi goðsögn í skemmtanalífinu myndi ég snúa mér að óhjákvæmilegri heimsfrægð Kimono. Í kjölfarið myndi ég redda þessum heimsfriði sem allir eru að tala um, taka á móti Nóbelsverðlaunum og verða fyrsti trúleysinginn sem kjörinn verður páfi. Frá Vatíkaninu myndi ég svo eyða ævikvöldinu í að leysa upp öll trúarbrögð heimsins til að tryggja eilífan heimsfrið og setja svo sjálfan mig af sem páfa og verða þar með síðasti páfinn.

Hefurðu einhvern tímann lent í ógurlegri hættu? Svo sannarlega, nokkrum sinnum. Að horfa á bíl koma akandi á 90 km hraða inn í bílsætið þitt er viðburður sem fær þig til að fara snögglega yfir helstu vonbrigði lífsins, og spyrna fótum svo ærlega í gólfið. Svo sneri ég gamla Volvonum mínum í nokkra hringi í snjóbyl á hraðbraut í New Jersey og rétt sleikti hornið á 18 hjóla trukk. Æðislegt. Það kostaði buxnaskipti á næstu bensínstöð.

Hvað er það versta sem einhver hefur nokkurn tímann sagt við þig? "Eitthvað fleira?"

Hvaða bók er á náttborðinu? Sjálfsævisaga Davids Lee Roth; Crazy From The Heat. Þetta er önnur lesning, nota bene.

Drykkurinn? Vodka, tónik og latte með vanillubragði.

Facebook eða MySpace? Gimme some space and get off my face!

Heldurðu að Britney eigi afturkvæmt?

Bíddu, er hún hótelerfinginn eða poppstirnið nærbuxnalausa? Eða eru þær sama manneskjan? Hver var spurningin?

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur og aftur?

Barfly með Mickey Rourke og Faye Dunaway eftir handriti Charles Bukowskis. Ótrúlega heiðarleg mynd.

Hver er syndsamlegasta nautnin þín? Þýskt súkkulaðikex. Þeir skilja þetta sem vilja.

Hvaða lag ætti að spila í jarðarförinni þinni?

Landslide með Fleetwood Mac. Ég myndi syngja með úr kistunni.

Hvað er á döfinni hjá þér í október? Flottir tónleikar eins og Skakkamanage, Motion Boys, Ólöf Arnalds vs. Ólafur Arnalds og svo á Iceland Airwaves eftir að heimta mikla orku. Að mála eldhúsið heima er alveg inni í myndinni líka.

amb@frettabladid.is

 


Björn Ingi greinilega mikið veikur

Það er nokkuð ljóst af þessari frétt að Björn Inig er mikið veikur og gengur því "veikur inn í þetta nýja samstarf "vinstri flokkanna" í borgarstjórn.  Ekki dettur mér í hug að óska borgarbúum til hamingju þetta verðu "veikur meirihluti" alveg frá byrjun.
mbl.is Nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta var falleg athöfn - til hamingju öll

Súla er flott heiman frá mér séð. Sveppurinn er, þegar þetta er skrifað, kominn í hæstu hæðir. Textinn hans Þórarins Eldjárns er líka flottur. Til hamingju öll, þetta var falleg athöfn.


mbl.is „Gjöf frá John og Yoko og íslensku þjóðinni til heimsbyggðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband