Öfgar í Ameríku

 

usa-flag-photojpgFjölskyldan okkar tengist með margvíslegum hætti Bandaríkjunum.  Erla flutti þangað ung að árum og bjó í New York nánast óslitið í um 18 ár.  Chloe er fædd á Manhattan í desember 1981 en fluttist til Íslands tæplega 4 ára gömul. Elsa, Birna og Gylfi fóru öll vestur til Ameríku á unglingsárunum til árs dvalar og Birna var sú eina sem ekki kom aftur enda kynntist hún indælum strák David Albert og þau giftu sig í desember árið 1997.  Elsa og Mike Rosenwald kynntust á Íslandi, giftu sig þar og byrjuðu sinn búskap en fluttu þaðan til Spánar og bjuggu þar í þrjú ár og þar er Victor Axel fæddur. Þaðan fluttu þau til Íslands og loks til Bandaríkjanna í nóvember árið 2000.

Birnu og Dave eignuðust son, Michael Gísli, 30. mars 1998 og þau voru að byrja að koma sér fyrir í lífinu þegar mikið áfall dundi yfir.  Dave var að aka heim að kvöldlagi ásamt félögum sínum af hljómsveitaræfingu þegar ráðist var á þá og þeim viðskiptum lauk með því að Dave lét lífið. Í frétt Morgunblaðsins frá 1. maí 1999 segir:
 "Ódæðismaðurinn laus gegn tryggingu.  BANDARÍKJAMAÐURINN sem lést í Bristol í Pennsylvanínu á þriðjudag af völdum áverka eftir hamarshögg hét David Albert og var tuttugu og sex ára gamall. David starfaði sem tónlistarmaður og var meðlimur í rokkhljómsveitinni Plug Ugly. Eiginkona hans er íslensk, Birna Blöndal Albert, og eignuðust þau einn son, Michael Gísla."

Það fyrsta sem vakti athygli mína þegar ég kom til Birnu eftir þennan hroðalega atburð var að húsið var allt fullt af mat. Fullt af mat sem nágrannar hennar höfðu útbúið og komið til hennar með þeim skilaboðum að hún hefði um allt annað að hugsa.  Ótrúlega mikill annar stuðningur kom frá allskonar fólki sem bæði þekti mikið og lítið til þeirra Birnu og Dave.  Ég man vel að þá kom þessi hugsun upp í huga mínum "ÖFGAR Í AMERÍKU".  Mér var samt fullljóst að allur sá mikli stuðningur sem við fundum var afar vel meintur og hann var þegin með þökkum.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta núna er að aftur er ég staddur í Bandaríkjunum og nú vegna veikinda dóttur minnar Elsu, sem gekkst undir heilaskurðaðgerð s.l. föstudag þar sem fjarlægt var óvelkomið krabbameinsæxlis. Hún kom heim af spítalanum á sunnudag fyrir viku og síðan þá hafa nágrannarnir verið að fylgjast með líðan hennar og framvindu mála og án afláts boðið fram aðstoð af öllu tagi.  Síðan þá hefur ekki verið eldað í húsinu númer 218 við Stauffer Road því nágrannarnir sjá um það.  Milli klukkan fjögur og fimm á hverjum degi kemur einhver þeirra færandi hendi. "Þið hafið um allt annað að hugsa en elda mat". Og þetta eru sannkallaðar veislur með öllu tilheyrandi.  Nú rétt í þessu kom kvöldveislan fyrir daginn í dag.  Það sem ég kalla "öfgar í Ameríku" eru auðvitað engir öfgar heldur ótrúleg samhjálp, samstaða, ástríki og náungakærleikur, sem er ekki venjulega það sem maður hugsar þegar Ameríka er nefnd á nafn heima á Íslandi árið 2007. "Maður líttu þér nær".  Við erum líka afar þakklát fyrir allan þann mikla stuðning sem við njótum frá fjölskyldum okkar ogvinum. Allt þetta góða fólk hefur verið óþreytandi í að vera í sambandi við okkur, fylgjast með og styðja okkur og styrkja og fyrir það er þakkað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband