Konstantin skýrður á fjallinu Filerimos

 

Bakgarður klaustursinsÞað var dálítill asi á okkur eftir komu Heimsferðavélarinnar í dag.  Eftir að allir farþegar voru komnir á sín hótel hentumst við heim til að skipta um föt.  Við fórum í okkar fínast púss og brunuðum upp fjallið Filerimos, alveg upp á topp að Church of Our Lady.  Þar voru prestarnir í óðaönn að koma fyrir altari í bakgarði klaustursins og gestirnir streymdu að.  Irini vinkona okkar og maðurinn hennar tóku okkur fagnandi og móðir hennar nældi í okkur lítið fallegt merki með krossi og bókstafnum K, sem stendur fyrir fyrsta staf í nafni barnsins - Konstantin, sem átti að fara að skíra.

Athöfnin byrjaði.  Prestarnir voru tveir og til hliðar höfðu Guðforeldrarnir sem voru þrír komið sér fyrir með barnið.  Prestarnir lásu þeim nokkrar bænir og það vakti athygli mína að foreldrar barnsins tóku ekki neinn þátt í þessari athöfn og heldur ekki síðar þegar sjálf skírnarathöfnin hófst.  Allt var í höndum prestanna og Guðforeldranna.  Drengurinn grenjaði þessi ósköp eins og við var að búast, var hreint ekkert með á öllu þessu tilstandi.

Við altarið hafði verið komið fyrir allstórum skírnarfonti.  Þegar athöfnin stóð sem hæst var barninu lyft upp yfir skírnarfontinum meðan prestarnir tónuðu eða sungu í gríð og erg og þá tók sá stutti sig til og sprændi beint ofan í vatnið heilaga áður en honum var dýft ofan í þrisvar sinnum.  Prestarnir og Guðforeldrarnir tónuðu enn meira, krossuðu barnið í bak og fyrir og loks tók amma við barninu og þurrkaði og færði í hvít klæði.  Að lokum var barnið blessað smá í viðbót og athöfnin búin. 

Nú tóku foreldrarnir barnið til sín og viðstaddir mynduðu röð til að óska aðstandendum til hamingju og hlutu að launum tvær litlar gjafi til að taka með sér til minja.  Konstantin hafi verið skírður og tekinn inn í Grísku orthodox kirkjuna í fallegri athöfn á fjallinu Filerimos.

Ég var myndavélar laus en Hildur Ýr tók helling af myndum sem ég set inn síðar en minningarnar frá þessari fallegu athöfn og vinarboði geymi ég í huga mínum um ókomna tíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband