Chloe er ekki á leið til Íslands í bráð, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins

Þetta hressilega viðtal við Chloe birtist í dag (viðtalinu fylgdi þessi ljómandi falleg mynd sem ég tók af henni hér á Rhodos um daginn):

Ekki á leið til Íslands í bráð

Fréttablaðið, 18. júlí. 2007 00:30

Chloe á Rhodos

Fyrirsætan Chloe Ophelia Gorbulew sest á skólabekk í Northumbria University í Newcastle í haust, en þar hyggst hún læra arkitektúr. „Mig hefur lengi dreymt um að læra arkitektúr," segir Chloe.

 „Ég kláraði listnámsbraut í Iðnskólanum í Reykjavík og ætlaði alltaf í skóla í Kaupmannahöfn. Það datt upp fyrir þannig að ég flutti hingað, fann þennan fína skóla og komst inn. Ég er mjög sátt við það. Hér er meiri áhersla lögð á verkfræðihliðina en víða annars staðar enda er skólinn þekktur fyrir stóra og öfluga verkfræðideild. Við fáum því ekki að teikna skrautbyggingar sem ómögulegt er að byggja," segir hún og hlær.


Námið er til BA gráðu og tekur þrjú ár. „Svo er hægt að fara ýmsar leiðir í þessu eftir það. Mér skilst reyndar að þeir sem kláruðu BA námið síðast hafi margir hverjir strax fengið spennandi atvinnutilboð í Bandaríkjunum og víðar. Ef maður yrði svo heppinn væri gaman að prófa það og huga svo að mastersnámi síðar."


Chloe hefur búið í Bretlandi síðan í lok nóvember en fyrir þann tíma starfaði hún sem fyrirsæta á Indlandi fyrir Eskimo. Hún segir dvölina á Indlandi hafa verið lærdómsríka. „Indland var æðislegt. Það er gaman að upplifa eitthvað sem er svona allt öðruvísi. Maður lærði helling og kynntist frábæru fólki. Svo lærði ég að kunna að meta indverska matargerð enda sást það á manni þegar maður kom tilbaka!"


Sem fyrr segir hefst námið ekki fyrr en í haust en Chloe starfar í augnablikinu sem útstillingahönnuður í húsgagnaversluninni Ilva. „Keðjan var keypt af Íslendingum snemma á árinu. Maður virðist einhvern veginn alltaf enda á því að vinna fyrir Íslendinga hvar sem maður er," segir Chloe hlæjandi. Hún býr í parhúsi í Newcastle ásamt kærasta sínum, Árna Elliott Swinford og hundinum þeirra. „Við getum leigt hús í Newcastle fyrir helmingi minni pening en við myndum borga fyrir litla tveggja herbergja íbúð í London. Það var ein af ástæðum þess að ég hafði ekki áhuga á að vera þar, það er einfaldlega of erfitt að draga fram lífið."


Chloe segir að draumurinn sé að eignast eigin arkitektastofu í framtíðinni. Hún segist jafnframt ekki vera á heimleið í bráð. „Við erum alveg til í að flytja til Íslands einhvern tímann en það er ekki á dagskránni í bráð. Draumurinn er að stofna stofu, búa í húsi eftir sjálfa mig og vinna við að teikna falleg hús fyrir fólk - að skilja eitthvað eftir sig."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband